29. ágúst 2025

Framleiðnivöxtur verði meginviðmið atvinnustefnu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Framleiðnivöxtur verði meginviðmið atvinnustefnu

Samtök atvinnulífsins hafa skilað inn umsögn um áform stjórnvalda um atvinnustefnu Íslands til 2035 sem kynnt voru í samráðsgátt í ágúst. Í umsögninni leggja samtökin áherslu á að atvinnulífið sé grunnstoð efnahagslífsins og að stefna til næstu ára verði aðeins trúverðug og árangursrík ef hún er unnin í nánu samstarfi við fyrirtækin sjálf.

Breið sátt forsenda árangurs

SA fagna því að stjórnvöld skuli leggja áherslu á aukna verðmætasköpun, framleiðni og fyrirsjáanleika í rekstrarumhverfi fyrirtækja. Samtökin telja þó að það skipti höfuðmáli að ná breiðri sátt um markmið, skilgreiningar og mælikvarða stefnunnar. Til þess þurfi virkt samráð við atvinnulífið – ekki aðeins í formi samráðs á pappír heldur með beinni aðkomu fyrirtækja að stefnumótun, meðal annars í vinnuhópum og ráðgefandi nefndum.

Samtökin benda á að skortur á slíkri aðkomu geti dregið úr trúverðugleika vinnunnar og minnkað líkur á að stefnan nái fram að ganga. Réttast væri, að mati SA, að fulltrúar allra helstu atvinnugreina eigi sæti við borðið þegar framtíðarsýn í atvinnumálum er mótuð.

SA leggja til að atvinnustefnan byggi á skýrum mælikvörðum sem endurspegla efnahagslegan stöðugleika, atvinnuþátttöku, framleiðni og fjölbreytni útflutnings. Slík nálgun tryggir að stefnan mæli raunverulega verðmætasköpun.

Framleiðni er forsenda sjálfbærs hagvaxtar

SA leggja áherslu á að framleiðnivöxtur verði meginviðmið atvinnustefnu. Framleiðni sé forsenda sjálfbærs hagvaxtar og sjálfbærrar launaþróunar. Þó þurfi að líta á framleiðni í víðu samhengi: mismunandi atvinnugreinar búi við ólíka stöðu, ytri aðstæður geti haft tímabundin áhrif, og samspil atvinnugreina skipti máli fyrir byggðaþróun og samfélagið í heild.

Í umsögninni er jafnframt bent á að lífskjör á Íslandi séu þegar með þeim bestu í heiminum. Kaupmáttur meðallauna sé í efstu sætum innan OECD, jöfnuður mikill og íslenska lífeyriskerfið í fremstu röð. Þetta sýni að margt hafi tekist vel, en að áfram sé til mikils að vinna.

Stjórnvöld geta lagt grunn að framleiðnivexti með einfaldara regluverki, fjárfestingu í menntun og innviðum, auknu aðgengi að erlendu fjármagni og þekkingu, sem og frjálsari viðskiptum

Betra rekstrarumhverfi

Samtökin leggja til að atvinnustefnan byggi á almennri nálgun þar sem skapað er samkeppnishæft rekstrarumhverfi fyrir allar atvinnugreinar. Það felur í sér einfaldara regluverk, skilvirkt og hóflegt skattkerfi, öfluga innviði og bættar forsendur fyrir fjárfestingar.

SA vara sérstaklega við því að hækkanir skatta dragi úr hagvexti og grafi undan sjálfbærri þróun. Þvert á móti sé lækkun fyrirtækjaskatta ein áhrifaríkasta leið stjórnvalda til að efla útflutning, fjölga störfum og auka framleiðni.

Frjálsari viðskipti, aukin samkeppni og aðgengi að erlendu fjármagni og þekkingu hafa sögulega stutt við framleiðniaukningu á Íslandi og eru forsenda frekari vaxtar.

Mannauður og menntun

Mannauður er, að mati SA, mikilvægasta auðlind fyrirtækja. Áframhaldandi vöxtur verði háður aðfluttu vinnuafli og því þurfi regluverk að taka mið af því. Jafnframt sé áhyggjuefni versnandi frammistaða íslenskra nemenda í PISA-könnunum og vaxandi misræmi milli menntunar og atvinnulífs. Stjórnvöld þurfi að leggja aukna áherslu á árangur í menntamálum og gera markvissar breytingar á vinnumarkaðslöggjöf til að auka sveigjanleika og skilvirkni.

Aukin þátttaka Íslands í alþjóðaviðskiptum og aðgangur að erlendu fjármagni og þekkingu hafa verið meðal helstu drifkrafta framleiðniaukningar undanfarna áratugi. Frjálsari viðskipti styrkja samkeppnishæfni, bæta aðgang að aðföngum og skapa grundvöll nýrrar verðmætasköpunar.

Að horfa til framtíðar

Í umsögninni vara SA við því að atvinnustefnan verði notuð til að hygla ákveðnum atvinnugreinum á kostnað annarra eða að samráð verði aðeins til málamynda. Slíkt myndi grafa undan trausti og minnka líkur á að samstaða náist. Þess í stað þurfi að leggja áherslu á almenna nálgun sem miðar að því að styrkja samkeppnishæfni Íslands sem heildar.

Reglubyrði á innlendum mörkuðum er meiri á Íslandi en í mörgum samanburðarlöndum. Flókið regluverk og íþyngjandi kvaðir auka kostnað fyrirtækja og draga úr samkeppnishæfni. SA hvetja til einföldunar regluverks til að styrkja framleiðni og verðmætasköpun.

„Atvinnustefna getur orðið öflugt verkfæri til að skapa aukna hagsæld og tækifæri, sé rétt að henni staðið,“ segir í umsögn SA. Samtökin lýsa sig reiðubúin til frekara samtals og samstarfs við stjórnvöld um útfærslu stefnunnar og hvetja til að fulltrúar atvinnulífsins fái skýra og beina aðkomu að mótun hennar.

Samtök atvinnulífsins