Efnahagsmál - 

22. mars 2010

Erfiðar ákvarðanir bíða í ríkisfjármálunum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Erfiðar ákvarðanir bíða í ríkisfjármálunum

Skattar hafa nú þegar verið hækkaðir of mikið miðað við það sem samið var um í stöðugleikasáttmála aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélaganna og ríkisstjórnarinnar. Það bíða því erfiðar ákvarðanir í ríkisfjármálunum þar sem óumflýjanlegt er að skera niður útgjöld til að rétta af halla ríkissjóðs. Þetta kom m.a. fram í spjalli við Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóra SA, í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni um skattahækkanir og áhrif þeirra.

Skattar hafa nú þegar verið hækkaðir of mikið miðað við það sem samið var um í stöðugleikasáttmála aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélaganna og ríkisstjórnarinnar. Það bíða því erfiðar ákvarðanir í ríkisfjármálunum þar sem óumflýjanlegt er að skera niður útgjöld til að rétta af halla ríkissjóðs. Þetta kom m.a. fram í spjalli við Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóra SA, í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni um skattahækkanir og áhrif þeirra.

Hannes benti á að fjölmargar þjóðir hafi brugðist við kreppunni með því að lækka skatta og útgjöld til að örva efnahagslífið. Sú leið sé því miður ekki fær á Íslandi þar sem þjóðin hafi samtímis lent í mörgum áföllum m.a. gjaldeyriskreppu, fjármálakreppu og efnahagaskreppu. Skyndilega hafi ríkisfjármálin verið orðin ósjálfbær og gjöldin miklu hærri en tekjurnar þar sem tekjugrundvöllurinn hrundi og því hafi verið nauðsynlegt að grípa til óhefðbundinna aðgerða.

Hannes rifjaði upp að í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hafi verið tekin upp sú stefna að reka ríkissjóð í fyrstu með miklum halla en hallinn í fyrra nemi um 140-150 milljörðum króna. "Það má segja að það hafi verið mjög hvetjandi en það er alveg ljóst að þessu fylgir mikil skuldasöfnun sem verður ósjálfbær eftir skamman tíma og undir slíkri skuldabyrði getur ríkissjóður ekki risið. Þess vegna verður að grípa til aðgerða."

Hannes segir að í stöðugleikasáttmálanum sem skrifað var undir í júní í fyrra hafi verið kveðið á um að á árunum 2009,2010 og 2011 væri tiltekin þörf á að minnka hallann á ríkisbúskapnum. Samkomulag hafi verið gert um að fara blandað leið skattahækkana og lækkunar á útgjöldum ríkisins, 45% að hámarki yrði mætt með skattahækkunum en 55% með samdrætti gjalda. "Skattahækkanirnar komu fyrst en lækkun gjalda að mestu síðar - þær erfiðu ákvarðanir á flestar eftir að taka."

Íslenska þjóðarbúið hefur orðið fyrir miklu áfalli með tilheyrandi kaupmáttarrýrnun almennings - bæði vegna verðlagshækkana og skattahækkana sem hafa dregið úr eftirspurn eftir vörum og þjónustu. "Við höfum metið það svo að í fyrra og á þessu ári skili hækkun skatta ríkisstjórninni um 70 milljörðum króna og það er mjög há fjárhæð ef hún er t.d.sett í samhengi við greidd laun í landinu sem eru um 700 milljarðar króna. Bara þessar skattahækkanir sem eru beinar á launin eða koma í gegnum verðlagið rýra ráðstöfunartekjurnar um allt að 10%. Það er í raun farið í alla skattstofna ríkisins og þeir þandir út, tekjuskattar, óbeinir skattar og vörugjöld."

Aðspurður um hvort ofangreind skattastefna þjóni einhverjum tilgangi sagði Hannes þetta: "Ég held að það hafi verið óhjákvæmilegt í þessari stöðu að hækka skatta eitthvað en að okkar mati hefði verið betra að hafa lægra hlutfall skattahækkana og meiri lækkun gjalda en þetta var sú leið sem var farin. Það er þó almennt ekki skynsamleg pólitík að hækka skatta á minnkandi skattstofna."

Hannes segir að fjármálaráðherra og ríkisstjórnin verði að standa við gerða samninga og það sé búið að nýta það svigrúm sem gefið var í stöðugleikasáttmálanum til skattahækkana og gott betur.

Hlusta má á viðtalið í heild á vef Bylgjunnar - frá fimmtudeginum 18. mars 2010:

SMELLIÐ HÉR TIL AÐ HLUSTA

Samtök atvinnulífsins