09. október 2025

Enn versna horfur í efnahagslífinu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Enn versna horfur í efnahagslífinu

Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem metur aðstæður góðar eða slæmar, fellur töluvert milli mánaða. Þetta er meðal þess sem kemur fram í reglubundinni könnun á stöðu og horfum í efnahagslífinu meðal stærstu fyrirtækja landsins. Könnunin var unnin á tímabilinu 18. ágúst til 15. september af Gallup fyrir Seðlabanka Íslands og Samtök atvinnulífsins.

Hefur vísitala efnahagslífsins ekki verið lægri frá því í september 2024 en þá var óvissa uppi vegna tolláforma Bandaríkjaforseta. Enn þá telja þó fleiri aðstæður í efnahagslífinu góðar en slæmar. Það sem af er þessu ári hefur vísitalan gefið talsvert meira eftir meðal stjórnenda í útflutningsfyrirtækja. Eru þannig fleiri stjórnendur sem telja aðstæður slæmar fremur en góðar meðal útflutningsfyrirtækja.

Sé litið til aðstæðna eftir hálft ár fellur vísitalan úr 120 stigum í 60. Talsvert fleiri telja aðstæður eftir sex mánuði þar af leiðandi slæmar fremur en góðar. Líkt og undanfarna mánuði telja stjórnendur fyrirtækja á landsbyggðinni aðstæður verri (25) en stjórnendur á höfuðborgarsvæðinu (75). Þá telja stjórnendur smærri fyrirtækja almennt stöðuna verri til framtíðar en stjórnendur stærri fyrirtækja. Verstar eru horfurnar í sjávarútvegi (13) næst verstar eru þær í ferðaþjónustu samgöngum og flutningum (43). Þar á eftir kemur iðnaður og framleiðsla (45) og verslun (46). Mest lækkar vísitalan hjá verslun milli kannana en í síðustu könnun stóð hún 143.

Fleiri telja að starfsfólki muni fækka

Færri stjórnendur fyrirtækja telja að fjölga eigi starfsfólki á næsta hálfa árinu. Eftir viðvarandi spennu undanfarin ár telja fleiri stjórnendur að starfsfólki muni fækka næsta hálfa en fjölga. Stjórnendur á landsbyggðinni telja mun fleirum munu fækka en fjölga miðað við höfuðborgarsvæðið. Sömuleiðis telja stjórnendur fyrirtækja í útflutningi starfsfólki muni fækka talsvert meira en stjórnendur fyrirtækja á innlendum markaði. Eru smærri fyrirtæki ólíklegri til að fjölga starfsfólki, að öðru leyti er ekki marktækur munur á svörum stjórnenda eftir stærð fyrirtækis.

Eftirspurn áfram sterk

Þrátt fyrir dræmar horfur í efnahagsmálum almennt telja stjórnendur að bæði innlend og erlend eftirspurn næstu sex mánaða verði nokkuð sterk. Meta stjórnendur fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu eftirspurnina almennt meiri en stjórnendur fyrirtækja á landsbyggðinni.

Fjárfesting gefur eftir

Stjórnendur telja að fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum verði lægri í ár, miðað við síðasta ár. Þannig var heildarvísitalan 92 í mars síðastliðnum en stendur í 85 nú. Sé litið til einstakra atvinnugreina er dreifingin fremur jöfn, nema í sjávarútvegi ásamt fjármála- og tryggingarstarfsemi.

Fjárfestingarhorfur versna

Séu niðurstöður bornar saman við síðasta tímabil könnunar frá mars síðastliðnum sést að fjárfestingarhorfur hafa versnað mest í sjávarútvegi, bygginga- og veitustarfsemi ásamt fjármála og tryggingastarfsemi. Þar sem langt er liðið á árið er líklegra að mat stjórnenda byggi frekar á rauntölum heldur en áætlunum líkt og þær gerðu á síðasta könnunartímabili.

Samtök atvinnulífsins