30. júní 2025

Aukinn kaupmáttur krefst öflugrar verðmætasköpunar

Anna Hrefna Ingimundardóttir

1 MIN

Aukinn kaupmáttur krefst öflugrar verðmætasköpunar

Nýverið var fjallað um úttekt Eurostat á verðlagi í Evrópuríkjum þar sem Ísland skipar sér enn og aftur í hóp þeirra ríkja þar sem verðlag er hvað hæst. Af þessu tilefni var haft eftir Breka Karlssyni, formanni Neytendasamtakanna: „Það er erfitt kannski að benda á einhvern einn sökudólg í þessu. Kaupmáttur á Íslandi er frekar hár, launin halda þó ekki, við erum að keppa um efstu þrjú sætin í verði en því miður erum við ekki á sama stað hvað varðar laun, þar erum við neðar á lista og þar þyrfti að koma eitthvað samræmi á.“ Það er óumdeilt að það er dýrt að búa á Íslandi, kaupmáttur er þó réttilega mikill eins og bent var á. Staðhæfing formanns Neytendasamtakanna um laun stenst sem betur fer ekki skoðun.

Kaupmáttur mikill þrátt fyrir hátt verðlag

Samkvæmt OECD er Ísland með næsthæstu kaupmáttarleiðréttu meðallaun meðal OECD ríkja sem þýðir að eftir að tekið hefur verið tillit til verðlags er kaupmáttur launa einn sá mesti meðal þjóða. Þau eru einungis hærri í Lúxemborg og lítillega lægri í Sviss. Á umliðnum árum hefur Ísland iðulega skipað sér í efstu sæti sambærilegra úttekta.

Meðallaun segja vitaskuld ekki alla söguna en samkvæmt Eurostat er hlutfall lágtekjufólks (þeirra sem eru með 2/3 eða minna af miðgildi tekna í hverju landi fyrir sig) það þriðja lægsta á Íslandi af öllum Evrópuríkjum. Launadreifing á Íslandi er samþjöppuð og skýringuna á háum meðallaunum er því ekki að finna í fámennum hópi fólks með óvenjuháar tekjur.

Það er engin tilviljun að þessi þrjú ríki, þar sem laun eru að jafnaði hæst, skuli einnig mælast með hæsta verðlagið. Þó fjölmargt skýri verðlag, s.s. stærð markaða, stefna seðlabanka, gjaldeyrismarkaðir og flutningskostnaður er verðlag almennt hátt í löndum þar sem laun eru há og velmegun mikil. Þá má ekki gleyma þætti skattkerfisins en neytendur bera ávallt hluta skattbyrðar og það er staðreynd að almennt þrep virðisaukaskatts hérlendis er með því hæsta sem þekkist.

Launakostnaður er hár á Íslandi

Samkvæmt gögnum Eurostat fyrir árið 2024 var launakostnaður atvinnurekenda á vinnustund að meðaltali í evrum (að meðtöldum launatengdum gjöldum) sá þriðji hæsti í Evrópu, á eftir Noregi og Lúxemborg þar sem verðlag mælist að jafnaði einnig hátt. Þess ber að geta að gögn fyrir Sviss voru ekki fáanleg en ætla má að launakostnaður þar í landi sé einnig með því hæsta sem gerist.

Há laun hafa áhrif á verðlag bæði í gegnum sterka eftirspurn en einnig hærri framleiðslukostnað og því er engin sérstök furða að verðlag sé almennt hærra í löndum þar sem laun eru há. Launakostnaður er jafnan einn stærsti kostnaðarliður fyrirtækja og hann er óvíða hærri en á Íslandi. Verðlagning þarf að standa undir þeim kostnaði sem felst í því að greiða há laun. En ekkert land getur staðið undir háu launastigi til lengdar án þess að það sé grundvallað á öflugri verðmætasköpun og góðum rekstrarskilyrðum.

Aukinn kaupmáttur er markmiðið

Það má sannarlega taka undir með formanni Neytendasamtakanna þegar kemur að markmiðinu um aukinn kaupmátt almennings. Leiðin til þess er þó ekki að hækka laun enn frekar án innistæðu. Í nýjustu yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabankans er launakostnaður fyrirtækja tiltekinn sem sérstakt áhyggjuefni í tengslum við verðbólguþróun og sem ógn við vaxtalækkunarferlið. Það er enda gömul saga og ný að launahækkanir án verðmætasköpunar eru ekkert annað en verðbólgufóður.

Eina leiðin til að skapa aukinn kaupmátt sem innistæða er fyrir er að skapa aukin verðmæti. Það er ekki flóknara en svo. Í því ljósi er verulegt áhyggjuefni að þrátt fyrir orðræðu um annað er ný ríkisstjórn í óðaönn að hækka skatta á atvinnulíf, draga úr hvata til atvinnuþátttöku og þrengja rekstrarskilyrði mikilvægra atvinnugreina. Nú þegar sjást merki um dvínandi fjárfestingaráform fyrirtækja, sem boðar ekki gott fyrir kaupmátt framtíðarinnar. Óskandi væri að stjórnvöld ættu frekar virkt samtal við atvinnulífið, þar sem verðmætin verða til, um hvað þarf til að auka kaupmátt á Íslandi enn frekar. Eitt er víst - atvinnulífið lætur ekki sitt eftir liggja í þeim efnum.

Anna Hrefna Ingimundardóttir

Aðstoðarframkvæmdastjóri og forstöðumaður efnahagssviðs