24. október 2025

Atvinnulífið fagnar breyttum áherslum en varar við víðtæku gildissviði

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Atvinnulífið fagnar breyttum áherslum en varar við víðtæku gildissviði

Einföld, gagnsæ og skýr löggjöf um rýni erlendrar fjárfestingar getur verið jákvæð en þótt tekið hafi verið tillit til gagnrýni atvinnulífsins á fyrri stigum málsins eru enn atriði sem þarfnast nánari skoðunar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í umsögn sameiginlegri umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samorku, Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Viðskiptaráðs.

Samtökin leggja áherslu á að rýnilöggjöf sé mikilvæg í ljósi breyttra aðstæðna á alþjóðavettvangi, meðal annars vegna örra tæknibreytinga og aukinnar áherslu á öryggis- og varnarmál. Þau telja þó nauðsynlegt að gæta hófs við lagasetningu og tryggja að regluverkið verði samræmt, gagnsætt og í takt við alþjóðleg viðmið.

Helstu ábendingar samtakanna:

  • Gildissvið frumvarpsins er enn rúmt sem getur skapað óvissu um tilkynningarskyldu og hamlað erlendri fjárfestingu að óþörfu. Mikilvægt er að hægt verði að leita forálits á tilkynningarskyldu með þröngum tímaramma.
  • Innlendur aðili telst til erlends aðila ef 25% eða meira af eignarhlutum eða atkvæðisrétti hans er beint eða óbeint í eigu erlends eða erlendra aðila miðað við samanlagða hlutdeild þeirra. Skilgreining á tengdum aðila (innlendum og erlendum) skv. orðskýringum frumvarpsins er víðtæk og matskennd, sem getur leitt til vandkvæða við mat á því hvort 25% þröskuldinum sé náð.
  • Tilkynningarskylda nær einnig yfir láns- og veðsamninga og tiltekna samstarfs- og viðskiptasamninga sem getur m.a. leitt til þess að viðskiptabankar verði tilkynningarskyldir við lánveitingar.
  • Fjöldi samstarfs- og viðskiptasamninga fjölmargra íslenskra fyrirtækja með erlent eignarhald kann að vera tilkynningarskyldur og háður samþykki stjórnvalda.
  • Rýnin þarf að byggja á faglegu mati fremur en pólitískum áherslum, en forræði og ákvörðun vegna allra mála verður á höndum ráðherra fremur en nefndar eða ráðuneytis eins og tilfellið er á hinum Norðurlöndunum.

Samtökin telja jafnframt mikilvægt að fjallað verði samhliða um eignarhald erlendra aðila á fasteignum, sem verulegar takmarkanir eru á í öðrum lögum, til að draga úr tvíverknaði og flækjum í framkvæmd. Þau leggja áherslu á að fjárfesting sé grunnur að framþróun og lífskjarasókn og að regluverk sem snýr að fjárfestingum verði einfalt, skilvirkt og sem minnst íþyngjandi.

„Alþjóðleg samkeppni ríkir um fjármagn og spilar þar skýrt og gagnsætt regluverk lykilhlutverk í eftirspurn. Það er því mikilvægt að vanda vel til verka og gæta hófs við lagasetningu sem snýr að fjárfestingarumhverfinu og ganga úr skugga um að ábatinn af slíkri löggjöf sé ávallt meiri en kostnaðurinn,“ segir í umsögninni.

Samtökin lýsa sig reiðubúin til áframhaldandi samráðs við stjórnvöld um útfærslu frumvarpsins.

Samtök atvinnulífsins