1 MIN
Alþjóðleg samvinna um vinnuvernd og eftirlit á vinnumarkaði
Þann 26. ágúst sl. var haldið málþing á vegum ELA - European Labour Authority í húsakynnum Vinnumálastofnunar. Markmið málþingsins var m.a. að styrkja samstarf aðildarríkja Evrópusambandsins og EES-ríkjanna og ræða hvernig best sé að sporna gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði í HORECA-geiranum (hótel, veitingar og ferðaþjónusta). Fulltrúi SA, Maj-Britt Briem, hélt erindi á málþinginu m.a. um mikilvægi aðkomu aðila vinnumarkaðarins að mótun aðgerða er snúa að eftirliti og viðurlögum.
Dagana 3-5 september sl. hittust sérfræðingar í vinnuvernd atvinnurekendasamtaka á Norðurlöndunum í Osló. Á fundinum var rætt um þróun á vinnumarkaði og löggjöf á sviði vinnuverndar (OSH). Umræður á fundinum sneru að helstu áskorunum á vinnumarkaði, hvernig hægt sé að draga úr veikindafjarvistum og stuðla að farsælli endurkomu starfsfólks úr veikindaleyfi. Rætt var um geðheilbrigði og mælingar á vinnustaðatengdum streituþáttum, hvernig hægt sé að draga úr fjarveru vegna andlegra veikinda og hlutverk atvinnurekenda í að efla geðheilsu á vinnustöðum. Rætt var um öryggismenningu og Norðmenn kynntu verkefnið Safety, Leadership, and Learning sem stuðla á að aukinni öryggisvitund á vinnustöðum. Einnig var rætt um jafnrétti og vinnuumhverfi kvenna, einföldun regluverks, og áhrif nýrrar tækni (s.s. gervigreindar) á vinnuumhverfið.
Þann 11. september sl. heimsóttu fulltrúar frá vinnueftirliti Ungverjalands Samtök atvinnulífsins. Hópurinn var hér í námsferð og sneri umræðan á fundinum m.a. að því með hvaða hætti aðilar vinnumarkaðarins komi að eftirliti á íslenskum vinnumarkaði.

Dagana 3-5 september sl. hittust sérfræðingar í vinnuvernd atvinnurekendasamtaka á Norðurlöndunum í Osló.