23. október 2025

Ákvörðun um alþjóðlegt losunarkerfi frestað um ár

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ákvörðun um alþjóðlegt losunarkerfi frestað um ár

Alþjóða siglingamálastofnunin (IMO), undirstofnun sameinuðu þjóðanna, fundaði í síðustu viku um kerfi sem leggur gjald á gróðurhúsalofttegundir sem skip losa. Niðurstaða fundarins var sú að ákvörðun um hið svokallaða Net-Zero Framework, var frestað um ár.

Samkvæmt fréttum greiddu 57 ríki atkvæði með frestun en 49 voru á móti. Bandaríkin og Kína, stærstu hagkerfi heims, greiddu bæði atkvæði með frestuninni, ásamt Panama og Líberíu, tveimur stærstu fánaríkjum heims í skipaskráningu.

Stjórnvöld hvött til að nýta tímann
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir niðurstöðu IMO veita svigrúm til að koma íslenskum sjónarmiðum um útfærslu kerfisins betur á framfæri, enda sé margt enn óljóst um framkvæmd og áhrif alþjóðlegs kolefnisgjalds á sjóflutninga. Ber þar ekki síst að horfa til samspils við ETS-kerfi Evrópusambandsins.

„Frestun ákvörðunarinnar gerir Íslandi kleift að koma hagsmunum okkar og sérstöðu betur á framfæri. Við hvetjum stjórnvöld til að nýta tímann vel,“ segir Sigríður Margrét. „Við styðjum markmið um að draga úr losun og tryggja jöfn samkeppnisskilyrði í sjóflutningum. Slíku verður best áorkað í gegnum samræmt, alþjóðlegt kerfi fremur en bútasaum ólíkra svæðisbundinna kerfa sem auka flækjustig og kostnað.“

Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, leggur áherslu á að Ísland, sem lítið og opið hagkerfi háð alþjóðaviðskiptum, eigi mikið undir því að reglur séu skýrar, jafnar og sanngjarnar. „Við viljum sjá kerfi sem bæði styður orkuskipti og tryggir að smærri ríki verði ekki undir í alþjóðlegri samkeppni,“ segir Benedikt.

Samtök atvinnulífsins