1 MIN
Áhrif félagsmálastefnu ESB á Íslandi
Með EES-samningnum tókum við ekki aðeins upp þær reglur Evrópubandalagsins sem lutu að fjórfrelsinu svokallaða, þ.e. frjálsum vöru- og fólksflutningum, þjónustustarfsemi og fjármagnsflutningum, og samkeppnisreglum heldur einnig altæk ákvæði sem varða fjórþætta frelsið, þar með talin félagsmál. Er þar átt við starfsskilyrði og lífskjör launþega en samkvæmt EES-samningnum eru samningsaðilar sammmála um að nauðsynlegt sé að stuðla að umbótum á því sviði og þá einkum að því er varðar vinnuumhverfi með tilliti til heilsu og öryggis launþega. Á sviði vinnulöggjafar skyldi einnig gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja góða framkvæmd EES-samningsins auk beitingar þeirrar meginreglu að karlar og konur hljóti jöfn laun fyrir jafna vinnu, sbr. félagsmálakafla EES-samningsins. Á þessum grundvelli hafa nýjar gerðir EB á þessum sviðum verið teknar upp í EES-samninginn en þeim hefur fjölgað verulega frá því sem var við gerð samningsins.
Með EES-samningnum tókum við ekki aðeins upp þær reglur Evrópubandalagsins sem lutu að fjórfrelsinu svokallaða, þ.e. frjálsum vöru- og fólksflutningum, þjónustustarfsemi og fjármagnsflutningum, og samkeppnisreglum heldur einnig altæk ákvæði sem varða fjórþætta frelsið, þar með talin félagsmál. Er þar átt við starfsskilyrði og lífskjör launþega en samkvæmt EES-samningnum eru samningsaðilar sammmála um að nauðsynlegt sé að stuðla að umbótum á því sviði og þá einkum að því er varðar vinnuumhverfi með tilliti til heilsu og öryggis launþega. Á sviði vinnulöggjafar skyldi einnig gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja góða framkvæmd EES-samningsins auk beitingar þeirrar meginreglu að karlar og konur hljóti jöfn laun fyrir jafna vinnu, sbr. félagsmálakafla EES-samningsins. Á þessum grundvelli hafa nýjar gerðir EB á þessum sviðum verið teknar upp í EES-samninginn en þeim hefur fjölgað verulega frá því sem var við gerð samningsins.
Sami lagagrundvöllur á öllu Evrópska  efnahagssvæðinu
  Í öllum meginatriðum gilda því að þessu leyti sömu reglur á öllu  Evrópska efnahagssvæðinu án tillits til aðildar að ESB.  Við  erum því í reynd bundin af því að taka upp í íslenskan rétt  efnisreglur nýrra tilskipana á félagsmálasviðinu. Vel þekkt dæmi um  slíkt eru vinnutímasamningar aðila vinnumarkaðarins sem fjalla um  hvíldartíma og vikulegan hámarksvinnutíma starfsmanna, reglur um  vinnu barna og unglinga, lagaákvæði um fæðingar- og foreldraorlof,  lög um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum og  lög um hópuppsagnir. Í báðum síðast töldu tilvikunum hafa verið  sett ný lög vegna breytinga á tilskipunum EB um þessi efni, sbr.  lög nr.  72/2002 frá 8. maí sl. um réttarstöðu starfsmanna við  aðilaskipti að fyrirtækjum og lög 63/2000 um hópuppsagnir.   Öll þessi löggjöf hefur haft veruleg áhrif á íslenskan  vinnurétt.  Lagaþróunin hefur líka orðið mun hraðari en áður  auk þess sem flestar þessara reglna hafa að markmiði að styrkja  stöðu launþega og takmarka stjórnunarrétt vinnuveitenda að sama  skapi.  Áhyggjuefnið er fyrst og fremst að margar þeirra eru  til þess fallnar að draga úr þeim sveigjanleika sem einkennt hefur  íslenskan vinnumarkað, gert fyrirtækin betur í stakk búin en annars  til að mæta sveiflum og átt sinn þátt í að hér hefur kerfislægt  atvinnuleysi verið miklu minna en í mörgum löndum ESB.
Reglur í undirbúningi
  Þrátt fyrir yfirlýst markmið Lissabonfundarins fyrir tveimur árum  um að Evrópusambandið yrði samkeppnishæfasta hagkerfi veraldar  fyrir árið 2010, hefur enn ekki dregið verulega úr  reglusetningunni. Í mars síðastliðnum var afgreidd ný tilskipun um  upplýsingar og samráð við launþega  (2002/14/EB). Sú tilskipun  mun hafa veruleg áhrif hér á landi verði hún tekin upp í  EES-samninginn, sem gera má ráð fyrir. Hún skyldar fyrirtæki með  a.m.k. 50 eða 20 starfsmenn til að veita trúnaðarmönnum ákveðnar  upplýsingar varðandi rekstur fyrirtækisins og eiga við þá samráð  áður en tilteknar ákvarðanir eru teknar. Slíkt er nýlunda hér á  landi en gert er ráð fyrir að reglurnar verði teknar upp í  landsrétt fyrir 23. mars 2005. Þeim ríkjum sem eins og Ísland hafa  ekki reglur af þessu tagi er heimilt að takmarka beitingu þeirra  við fyrirtæki með a.m.k. 150 starfsmenn til 2007 og 100 starfsmenn  til 2008.  
Ný samstarfssvið utan  EES-samningsins   
  Breytingar sem gerðar hafa verið á Rómarsamningnum í Maastricht,  Amsterdam og Nice hafa breytt stöðunni að því leyti að ný  samstarfssvið hafa komið til sem falla lagalega utan  EES-samningsins.  Hvað varðar félagsmálastefnuna á það fyrst  og fremst við um þær almennu reglur sem settar hafa verið til að  hamla gegn mismunun vegna kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúarbragða,  skoðana, fötlunar, aldurs eða kynhneigðar og um atvinnumálastefnu  ESB.
Atvinnumálastefnan
  ESB leggur nú aukna áherslu á samstarf aðildarríkja og bandalags í  atvinnumálum. Samkvæmt nýjum ákvæðum Rómarsáttmálans er markmiðið  að aðildarríkin og bandalagið beiti samhæfðum aðferðum í  atvinnumálum.  Áhersla er einkum lögð á að auka þekkingu,  þjálfun og aðlögunarhæfni starfsmanna og að vinnumarkaðirnir geti  brugðist við efnahagslegum breytingum.  Aðildarríkin skulu  leggja sitt af mörkum til að ná þessu markmiði með þeim hætti sem  samræmist leiðbeiningum um efnhagsstefnu aðildarríkjanna og  bandalagsins sem ráðherraráðið ákveður. Sérstakar leiðbeiningar eru  síðan gefnar út árlega og framkvæmd þeirra fylgt eftir af hálfu  ráðherraráðsins. Atvinnumálanefnd skipuð fulltrúum aðildarríkanna  og bandalagsins gegnir leiðbeinandi hlutverki gagnvart  aðildarríkjunum og er jafnframt ætlað að hafa samráð við aðila  vinnumarkaðarins. EFTA-ríkin taka ekki þátt í þessu samtarfi. Þrátt  fyrir að það hafi ýmsar jákvæðar hliðar verður ekki annað séð en að  því fylgi verulegt skrifræði.     
Samantekt
  Margar tilskipanir ESB á félagsmálasviðinu hafa áhrif til minnkunar  á sveigjanleika á vinnumarkaði, en flestar þeirra gilda á öllu  Evrópska efnahagssvæðinu, þ.á m. Íslandi. Íslendingum ber því að  innleiða þær í landsrétt með sömu skyldum og aðildarríkjum ESB. Það  eru eingöngu þær reglur sem byggja á nýjum samstarfssviðum sem  komið hafa til á grundvelli breytinga á Rómarsáttmálanum eftir gerð  EES-samningsins, sem Ísland er óbundið af að taka upp. Það á nú  fyrst og fremst við um samstarfið í atvinnumálum og tilskipanir  bandalagsins varðandi mismunun vegna kynþáttar, þjóðernisuppruna,  trúarbragða, skoðana, fötlunar, aldurs eða kynhneigðar.