1 MIN
„Að nýta veikindafríið?“
Eftir glæstan sigur Íslands á Ungverjalandi á Evrópumeistaramótinu í handbolta í gærkvöldi hvatti ein af hetjum liðsins í leiknum landann til að fara út til þess að styðja landsliðið og nýta nokkra veikindadaga. Einhver kann að spyrja sig hvort unnt sé að nýta veikindadaga líkt og um orlof sé að ræða í tilvikum sem þessum.
Samkvæmt Maskínukönnun sem SA lét framkvæma í október, og fjallað er um í Morgunblaðinu í dag, sagðist þriðjungur svaranda hafa tilkynnt veikindi án þess að vera veikur. Mikill munur er á viðhorfi fólks eftir aldri en um helmingur svaranda undir fertugu telur í lagi að nýta veikindarétt í öðrum tilvikum en þegar um veikindi er að ræða á móti 12% svarenda yfir sextugu. Ef marka má niðurstöðu könnunarinnar þá kunna einhverjir að taka galsakennd orð landsliðsmannsins bókstaflega og tilkynna veikindi á næstu dögum í stað þess einfaldlega að óska eftir orlofi eða leyfi í nokkra daga.
Veikindaréttur er meðal mikilvægustu réttinda sem launþegar hafa samið um á vinnumarkaði og tryggir launþegum sem hafa áunnið sér inn veikindarétt rétt til greiðslu veikindakaups hjá atvinnurekanda eða sjúkrasjóði stéttarfélaga. Skilyrði þess að starfsmaður geti nýtt veikindarétt er því að starfsmaður sé óvinnufær sökum sjúkdóms eða slyss. Mikilvægt er að meðhöndla þennan rétt sem hart var barist fyrir á sínum tíma af mikilli virðingu enda ekki um sjálfgefinn rétt að ræða.
Undirritaður sem hefur líkt og flestir landsmenn fylgst spenntur með leikjum Íslands óskar landsliðinu alls hins besta á mótinu fram undan og vonar að sjálfsögðu til þess að landsmenn fjölmenni á næstu leiki landsliðsins í samráði við sinn atvinnurekanda.