Fréttir - 

13. desember 2016

Halldór Benjamín Þorbergsson ráðinn framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Halldór Benjamín Þorbergsson ráðinn framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins

Halldór Benjamín Þorbergsson, hagfræðingur, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Hann tekur við starfinu af Hannesi G. Sigurðssyni, sem gegnt hefur starfinu tímabundið síðan í ágúst. Halldór Benjamín hefur starfað sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Icelandair Group hf. undanfarin sjö ár.

Halldór Benjamín Þorbergsson, hagfræðingur, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Hann tekur við starfinu af Hannesi G. Sigurðssyni, sem gegnt hefur starfinu tímabundið síðan í ágúst. Halldór Benjamín hefur starfað sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Icelandair Group hf. undanfarin sjö ár.

Halldór hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu m.a. sem hagfræðingur og síðar framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands um tíma. Auk þessa hefur hann m.a. starfað hjá Milestone, Norræna fjárfestingabankanum og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Halldór Benjamín hefur sinnt stundakennslu í þjóðar- og rekstrarhagfræði bæði við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík og er höfundur fjölda greina og rita um hagfræðileg málefni.

Björgólfur Jóhannsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, segir mikinn feng að Halldóri Benjamín í starf framkvæmdastjóra SA. „Hann hefur alla eiginleika sem við vorum að leita að; er greinandi í nálgun sinni á viðfangsefni, er öflugur og sanngjarn í samskiptum og hefur áunnið sér traust með störfum sínum. Við væntum mikils af honum í spennandi en jafnframt krefjandi verkefnum sem framundan eru í íslensku atvinnulífi.“

Starf framkvæmdastjóra SA var auglýst laust til umsóknar þann 5. september síðastliðinn. Ráðningarferlið var í höndum Hagvangs.

Halldór situr m.a. í stjórnum Lindarvatns ehf., sem vinnur að uppbyggingu á Landssímareitnum við Austurvöll og í fagfjárfestasjóðnum Landsbréf Icelandic Tourism Fund. Hann sat í sjálfstæðri verkefnisstjórn Samráðsvettvangs um aukna hagsæld um endurskoðun skattkerfisins og hefur sinnt fjölbreyttri ráðgjöf innan íslensks stjórnkerfis.

Halldór Benjamín er 37 ára gamall og er kvæntur Guðrúnu Ásu Björnsdóttur lækni og eiga þau þrjá drengi á leikskólaaldri. Hann er stúdent af eðlisfræðibraut Menntaskólans í Reykjavík, lauk hagfræðiprófi frá Háskóla Íslands og er með MBA-gráðu frá Oxford háskóla.

Samtök atvinnulífsins