Vinnumarkaðsvefur

Bólusetningar vegna Covid-19 og úrræði atvinnurekanda

Markmið bólusetningar er að vernda þá sem eru í mestri hættu frá alvarlegum sjúkdómi og sjúkrahúsvist, að draga úr útbreiðslu veirunnar og koma í veg fyrir að ný afbrigði breiðist út. Lyfjastofnun Evrópu hvetur alla sem gjaldgengir eru til að láta bólusetja sig en sóttvarnarlæknir telur að líkurnar á smiti séu um þrefalt hærri hjá óbólusettum heldur en bólusettum.

Einstaklingar eru skuldbundnir samkvæmt sóttvarnarlögum nr. 19/1997 til að gjalda sem mestri varúð við smitsjúkdómum og gera sér allt far um að sýkja hvorki sjálfan sig né aðra, að svo miklu leyti sem framkvæmanlegt er. Þá skiptir það sköpum fyrir þjóðarbúið að sem minnstar raskanir verði í atvinnulífinu og samfélaginu vegna farsótta og mikilvægt að allir leggi sitt af mörkum.

Atvinnurekendum er skylt samkvæmt vinnuverndarlögum nr. 46/1980 að stuðla að öruggu vinnuumhverfi og tryggja heilsuvernd starfsfólks í vinnunni. Á atvinnurekendum hvílir skylda til að láta framkvæma áhættumat á vinnustað og grípa til nauðsynlegra forvarna í þeim tilgangi að koma í veg fyrir hættu sem kann að ógna heilsu og öryggi starfsfólks, eða draga úr henni eins og frekast er unnt, þar sem ekki er kostur að koma í veg fyrir hættuna, sbr. 2. mgr. 65. gr. a. vinnuverndarlaga. Þeim ber jafnframt að vernda starfsfólks gegn heilsuvá og heilsutjóni og reyna eftir fremsta megni að draga úr fjarvistum frá vinnu vegna veikinda og slysa með því að auka öryggi og viðhalda heilsu starfsfólks á vinnustað, sbr. 2. mgr. 66. gr. sömu laga.

Þá vaknar spurningin hversu langt atvinnurekendur geti gengið í framangreindu skyni. Ekki er eitt einhlítt svar við þeirri spurningu heldur þarf að vega og meta hvert tilvik fyrir sig. Sjónarmið um friðhelgi einkalífs starfsfólks vegast á við skuldbindingar atvinnurekanda samkvæmt vinnuverndarlögum og hagsmuni þeirra og starfsfólks af því að lágmarka líkur á rekstrarstöðvun.

Hér að neðan hafa SA tekið saman svör við algengum spurningum um bólusetningar, sýnatökur og skyndipróf.

Sjá einnig umfjöllun sem Persónuvernd hefur tekið saman í samráði við sóttvarnarlækni um covid-19 og sóttkví.

Eiga atvinnurekendur rétt á að vita hvort starfsfólk eða umsækjendur hafi látið bólusetja sig?

Upplýsingar um bólusetningarstöðu teljast til viðkvæmra persónuupplýsinga skv. 11. gr. persónuverndarlaga nr. 90/2018 . Heimilt er að vinna viðkvæmar persónuupplýsingar er nauðsyn krefur svo atvinnurekandi geti staðið við skuldbindingar sínar skv. vinnulöggjöf, sbr. 2. töluliður 1. mgr. 11. gr. persónuverndarlaga.

Svarið við spurningunni ræðst af því hvort atvinnurekanda sé nauðsynlegt til verndar heilsu og öryggi starfsfólks að búa yfir upplýsingum um bólusetningarstöðu starfsmanna sinna og þá sem hann hyggst ráða inn. Það hvort nauðsynjarkrafan sé uppfyllt fer eftir eðli starfsins, heilsu starfsfólks og þeirra sem starfsmaður umgengst í starfi sínu. Sjá einnig túlkun Persónuverndar hér .

Atvinnurekanda hefur rétt á að vita um bólusetningarstöðu starfsmanns í þeim tilvikum sem starfsmaður er sérstaklega útsettur fyrir veirunni eða þeir sem hann umgengst í starfi sínu og að sama skapi þegar starfsfólk sinnir starfi þar sem líkur á smiti eru sérstaklega miklar. Síðarnefnda tilvikið getur bæði átt við um starfsfólk sem starfar í mikilli nánd við samstarfsfólk eða viðskiptavini.

Samtök atvinnulífsins ráðleggja félagsmönnum að hafa í heiðri markmið persónuverndarlaga að ganga ekki lengra en nauðsyn krefur í söfnun persónuupplýsinga. Í þeim tilvikum sem óskað er eftir vitneskju um bólusetningarstöðu starfsfólks eða umsækjanda er mikilvægt að tilgangur vinnslunnar sé ákveðinn fyrirfram og búið sé að ákveða til hvaða viðbragða skuli gripið ef óbólusettir einstaklingar eru á vinnustaðnum.

Geta atvinnurekendur krafist þess að starfsfólk láti bólusetja sig fyrir covid-19?

Atvinnurekendur geta ekki krafist þess að starfsmenn þiggi bólusetningu enda réttur hvers og eins einstaklings að hafna bólusetningu þar sem hún er ekki lögbundin. Atvinnurekendur geta aftur á móti hvatt starfsfólk sitt til að þiggja bólusetningu.

Þá vaknar sú spurning hvort atvinnurekendur geti sagt þeim starfsmönnum upp störfum sem þiggja ekki bólusetningu. Varasamt er að álykta að heimilt sé að rifta fyrirvaralaust ráðningu starfsmanns (enginn uppsagnarfrestur greiddur) sem ekki vill bólusetningu enda hefur starfsmaður þá almennt ekki brotið gegn ákvæðum ráðningarsamnings eða starfsskyldum sínum. Ef bólusetning er á hinn bóginn forsenda ráðningar og starfsmaður efnir ekki samningsbundna skyldu getur atvinnurekandi rift fyrirvaralaust ráðningu að undangenginni skriflegri áminningu. Rétt er að heyra í lögmönnum SA áður en slík ákvörðun er tekin.

Á almennum vinnumarkaði gildir frjáls uppsagnarréttur atvinnurekanda, með þeim takmörkunum sem greinir í lögum og kjarasamningum. Sjá nánar um sérstaka uppsagnarvernd hér . Atvinnurekandi getur ákveðið m.t.t. eðli starfa og mati á áhættu sem fylgir óbólusettum starfsmönnum að rétt sé að segja upp þeim starfsmönnum sem neita að þiggja bólusetningu. Þar sem starfsmaður gæti haft gildar ástæður til að afþakka bólusetningu er rétt að kanna ástæður fyrir afstöðu starfsmanns og meta hvort rétt og mögulegt sé að fela starfsmanni önnur störf þar sem sem minni áhætta er af óbólusettum starfsmönnum.

Geta atvinnurekendur farið fram á að fólk sem ferðast yfir landamæri þiggi bólusetningu?

Erlend ríki geta gert að skilyrði fyrir komu til landsins að einstaklingur sé fullbólusettur. Sumt starfsfólk eru ráðið til að sinna erindum yfir landamæri, t.d. við uppsetningu á vélabúnaði eða viðskiptaerinda ýmiss konar. Þá vaknar spurningin hvað sé til ráða fyrir atvinnurekanda þegar starfsfólk getur ekki sinnt vinnu sinni þar sem hann ákveður að þiggja ekki bólusetningu.

Í framangreindum aðstæðum kann að vera um forsendubrest að ræða fyrir ráðningunni sem getur heimilað atvinnurekanda fyrirvaralausa uppsögn. Það hvort svo sé veltur á því hversu stór hluti starfsins er unninn yfir landamæri og hvort unnt sé að fela starfsmanni önnur verkefni. Ef félagsmenn eru í vafa hvað það varðar eru þeir hvattir til að heyra í lögmönnum SA en forsendubresturinn þarf að vera verulegur svo fyrirvaralaus uppsögn geti staðist. Í vafatilvikum er því rétt að beita fremur hefðbundni uppsögn þar sem uppsagnarfrestur er greiddur. Að sama skapi hvetur SA starfsfólk og atvinnurekendur til að eiga með sér hreinskilið samtal um hvernig unnt sé að leysa úr slíkri stöðu.

Geta viðskiptavinir farið fram á að starfsfólk sem þeir kaupa þjónustu af sé bólusett?

Samningsfrelsi er meginreglan á Íslandi. Aðilum er því heimilt að semja um að einungis bólusettir einstaklingar veiti þjónustu til viðkomandi viðskiptavinar gefi áhættumat viðskiptavinarins til kynna að þess sé þörf. Atvinnurekandi sem semur þannig getur aftur á móti komið sér í þá stöðu að tilgreindir starfsmenn sínir sem er ekki skylt að láta bólusetja sig geti ekki sinnt störfum sínum, sbr. umfjöllun að ofan.

Getur vinnuveitandi einangrað starfsfólk sem vill ekki láta bólusetja sig frá öðru starfsfólki?

Atvinnurekandi hefur ýmsa möguleika til að bregðast við í þeim tilfellum sem starfsmaður kýs ekki að láta bólusetja sig. Ein augljós leið er að hvetja starfsmann til að starfa í fjarvinnu þar sem unnt er að koma því við. Þar sem það er ekki hægt getur atvinnurekandi t.d. tryggt að starfsmenn haldi góðri fjarlægð og leggi áherslu á persónulegar sóttvarnir, t.d. notkun grímu.

Geta atvinnurekendur farið fram á að einkennalaust starfsfólk fari í sýnatöku?

Til að geta tryggt öryggi og heilsu starfsfólks hafa atvinnurekendur brýna hagsmuni af því að fá upplýsingar um hvort starfsmaður hafi smitast af kórónavírus, enda getur atvinnurekandi þurft að grípa til tafarlausra ráðstafana til að takmarka áhrif smits á samstarfsmenn og starfsemina. Starfsfólki með kórónavírus er því skylt að greina atvinnurekendum sínum frá því án tafar, sjá nánar hér .

Í ljósi þeirrar ábyrgðar sem hvílir á atvinnurekanda að vernda sitt starfsfólk og á starfsmönnum samkvæmt sóttvarnarlögum verður að telja að atvinnurekandi geti farið fram á að einkennalaust starfsfólk fari í sýnatöku gefi áhættumat til kynna að þess sé þörf. Atvinnurekandi sem fer fram á slíkt ber aftur á móti að bæta starfsmanni allan beinan kostnað og tjón sem af því hlýst, t.d. vinnutap á meðan starfsmaður fer í sýnatöku og bíður niðurstöðu ef starfsmaður á þess ekki kost að starfa á meðan í fjarvinnu. Í því ljósi getur einungis í algerum undantekningartilvikum verið skynsamlegt að fara þessa leið.

Almenn tilmæli sóttvarnaryfirvalda gilda varðandi starfsfólk með einkenni. Því ber að fara í sýnatöku. Sjá um greiðslu launa í sóttkví í þeim tilvikum hér .

Geta atvinnurekendur boðið upp á skyndipróf til greiningar á covid-19?

Það getur verið hluti af áhættumati atvinnurekenda að bjóða upp á valkvæða handahófskennda kórónaveiruskimun. Skyndipróf er önnur aðferð til að greina virka sýkingu en þau mæla ákveðinn próteinhluta veirunnar (mótefnavaka). Prófin eru misjöfn að gæðum og almennt ekki eins áreiðanleg og PCR-próf. Mikilvægt er því að kanna vel gæði þess prófs sem valið er. Gagnsemi prófanna er því einkum þegar þau eru tekin þar sem starfsmaður hefði ellegar ekki farið í PCR-próf. Ef starfsmaður greinist jákvæður í slíkri prófun er rétt að leitast eftir staðfestingu með PCR-prófi á vegum sýkla- og veirufræðideildar Landspítala . Prófin skulu framkvæmd á vinnutíma.