Verkfall Eflingar 2023
Ríkissáttasemjari hefur lagt fram miðlunartillögu í deilunni. Vegna atkvæðagreiðslunnar hefur verkföllum og verkbönnum verið frestað þar til niðurstaða atkvæðagreiðslunnar liggur fyrir 8. mars. sjá nánar.
Efling stéttarfélag hefur boðað að félagið muni beita verkföllum í yfirstandandi kjaradeilu við Samtök atvinnulífsins. SA hafa hafnað kröfum Eflingar um að samið verði um verulegar hækkanir launa umfram kjarasamning SA og SGS frá 3. desember sl.
SA undirbúa nú aðildarfyrirtæki á félagssvæði Eflingar undir komandi verkfallsátök. Upplýsingagjöf og aðstoð SA mun m.a. felast í:
- Upplýsingum á vef SA um tilhögun verkfallsaðgerða og mögulegum viðbrögðum atvinnurekenda
- Almennum upplýsingafundum og fundum með fyrirtækjum sem vinnustöðvun snertir
- Tölvupóstum til aðildarfyrirtækja
- Símaveri þar sem lögmenn SA veita ráðgjöf og upplýsingar
- Greiðslu bóta til aðildarfyrirtækja úr vinnudeilusjóði SA þegar við á
Hér að neðan verður hægt að nálgast upplýsingar um framkvæmd verkfallana, til hverra það nær, hverjir mega vinna í verkfalli og ganga í störf Eflingarfólks o.s.frv.
Unnt er að sækja um undanþágu frá verkfallsboðun vegna almannaöryggis með því að senda umsókn á undanthagunefnd@efling.is. Sniðmát að umsókn má nálgast hér.
Ef frekari spurningar vakna eru félagsmenn hvattir til að hafa samband við lögmenn vinnumarkaðssviðs SA
Hvenær geta verkföll hafist?
Tilkynna skal um boðað verkfall með a.m.k. 7 sólarhringa fyrirvara. Verkfall getur því fyrst hafist 7 sólarhringum eftir að verkfallsboðun hefur verið samþykkt í atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna og tilkynning borist sáttasemjara og þeim sem verkfall beinist aðallega gegn.
Til hverra nær verkfallsboðun?
Í öllum vinnudeilum er spurt að því til hverra verkfallið nær og hverjir megi vinna í verkfallinu.
Í 18. gr. vinnulöggjafarinnar segir að þegar vinnustöðvun hefur verið löglega hafin, er þeim, sem hún að einhverju leyti beinist gegn, óheimilt að stuðla að því að afstýra henni með aðstoð einstakra meðlima þeirra félaga eða sambanda, sem að vinnustöðvuninni standa.
Verkföll eru almennt talin taka til allra sem taka laun skv. þeim kjarasamningi sem um er deilt. Eftir sem áður taka verkföll ekki til félagsmanna annarra stéttarfélaga með kjarasamning um sömu störf.
Þegar stéttarfélag tilkynnir um atkvæðagreiðslu um verkfall er afmarkað til hverra verkfallsaðgerð á að taka. Verkfall nær til þess starfsfólks sem fellur undir tiltekinn kjarasamning og starfar á félagssvæði stéttarfélagsins.
Meginreglan hefur einnig verið sú að ófélagsbundnu starfsfólki sem fellur undir kjarasamninginn sé heimilt að vinna í verkfalli, enda hafi það hvorki haft tækifæri til að greiða atkvæði um vinnustöðvunina og eru óbundin af samþykktum þess félags. Félagsdómur í máli nr. 19/2019 gengur gegn þeirri meginreglu en skv. þeim dómi bar félagsmanni VR og Framsýn að leggja niður störf í verkfalli Blaðamannafélags Íslands. Samtök atvinnulífsins telja niðurstöðu dómsins ranga og til greina kemur að fá fordæminu hnekkt í því verkfalli sem er nú yfirvofandi. Sjá nánar: Má starfsfólk sem starfar eftir kjarasamningi SA og Eflingar en er ekki í félaginu vinna í verkfallinu?
Þeir sem eru bundnir af verkfalli er bæði rétt og skylt að hlýða verkfallsboði og leggja niður störf í samræmi við ákvörðun hlutaðeigandi stéttarfélags. Það leiðir af 3. gr. vinnulöggjafarinnar sem kveður á um að einstakir félagsmenn séu bundnir við löglegar samþykktir stéttarfélags síns.
Er starfsmaður sem fær greidd laun yfir taxta kjarasamnings bundinn af verkfalli?
Já, engu máli skiptir hvort starfsmaður fái greidd laun skv. taxta kjarasamnings eða semji persónubundið um laun sín. Hann er bundinn af ákvörðun stéttarfélags síns um verkfall, endi falli starf hans undir gildissvið þess kjarasamnings sem kjaradeila stendur um, þ.e. kjarasamning SA og Eflingar í þessu tilviki.
Hvaða störf falla undir kjarasamning SA og Eflingar?
Félagssvæði Eflingar nær til Reykjavíkur, Kópavogs, Seltjarnarness, Mosfellsbæjar og Kjósarsýslu að Botnsá, Grímsnesi og Grafningshreppi, Hveragerðisbæ og Sveitarfélaginu Ölfus.
Starfssvið félagsmanna sem starfa á veitinga- og gististöðum og við iðnað nær auk þess yfir Hafnarfjörð og Garðabæ. Umrætt starfsfólk getur því bæði fallið undir kjarasamning SA við Eflingu og SA við SGS vegna Hlífar þar sem búið er að semja.
Undir kjarasamning SA og Eflingar fellur m.a. verkafólk sem starfar á félagssvæði Eflingar í mötuneytum, verksmiðjum, matvælaiðnaði og slátrun, fiskvinnslu, byggingariðnaði, ræstingu, sorphirðu. Auk þess falla störf tækjastjórnenda og bifreiðastjóra, vaktmanna, ófaglærðs starfsfólks veitinga- og gistihúsa á félagssvæðinu undir kjarasamninginn.
Má starfsmaður hjá mér segja sig úr Eflingu?
Frá því Efling sleit kjaraviðræðum við SA og hóf undirbúning verkfallsaðgerða hafa lögfræðingar SA ekki haft við að svara fyrirspurnum félagsmanna um hvort fyrirtækin geti orðið við ósk starfsfólks um að flytja félagsaðild yfir í annað stéttarfélag.
Samkvæmt félagslögum Eflingar, sbr. gr. 5, er óheimilt að segja sig úr stéttarfélaginu meðan viðræður um kjarasamninga standa yfir. Þar sem kjaraviðræður standa yfir milli SA og Eflingar er starfsfólki sem starfar eftir kjarasamningi SA og Eflingar óheimilt að segja sig úr félaginu.
Starfsfólk sem er í Eflingu en sinnir störfum sem falla undir aðra kjarasamninga, hvort sem það ráði sig í nýtt starf eða var fyrir að starfa eftir öðrum kjarasamningi er á hinn bóginn heimilt að hætta að greiða í Eflingu og ganga í stéttarfélag sem er með kjarasamning sem gildir um starfið. Félagslög Eflingar takmarka þannig t.d. ekki að starfsmaður sem yrði gerður að stjórnanda gæti gengið í aðildarfélag Sambands stjórnendafélaga áður en gengið væri frá kjarasamningi milli SA og Eflingu.
Getur Efling bundið félagsmenn sem starfa utan félagssvæðis Eflingar?
Nei, stéttarfélög geta einvörðungu bundið starfsfólk sem starfar á félagssvæði sínu og eftir kjarasamningi félagsins. Efling getur þannig ekki bundið þá félagsmenn sína sem starfa eftir öðrum kjarasamningum. Efling getur þannig t.d. hvorki bundið þá félagsmenn sína sem starfa á félagssvæði annarra aðildarfélaga SGS né þá sem starfa eftir kjarasamningi SA við VR/LÍV.
Dæmi 1: starfsmaður í verslun greiðir í Eflingu. Kjarasamningur sem gildir um starfið er kjarasamningur SA og VR/LÍV og því ber starfsmanni ekki að leggja niður störf.
Dæmi 2: starfsmaður á veitingastað á Snæfellsnesi greiðir í Eflingu. Þar sem félagssvæði Eflingar nær ekki til Snæfellsness ber starfsmanni ekki að leggja niður störf.
Má starfsfólk sem starfar eftir kjarasamningi SA og Eflingar en er ekki í félaginu vinna í verkfallinu?
Meginreglan er sú að starfsfólk sem er óbundið af því félagi sem stendur að verkfallinu á að vera heimilt að vinna í verkfalli, enda hafi það hvorki haft tækifæri til að greiða atkvæði um vinnustöðvunina og er óbundið af samþykktum þess félags. Skiptir þá ekki máli þótt það sé í engu stéttarfélagi eða eigi aðild að öðru stéttarfélagi. F [JS1] élagsdómur í máli nr. 19/2019 gengur gegn þeirri meginreglu en skv. þeim dómi bar félagsmanni VR og Framsýn að leggja niður störf í verkfalli Blaðamannafélags Íslands. Samtök atvinnulífsins telja niðurstöðu dómsins ranga og til greina kemur að fá fordæminu hnekkt í því verkfalli sem er nú yfirvofandi.
Fd. 19/2019: Skv. verkfallsboðun tók verkfall til félagsmanna BÍ sem störfuðu á vefmiðlum tilgreindra miðla. Félagsdómur taldi verkfall beinast að þeim vinnuveitendum sem hafa launafólk í vinnu og greiða laun samkvæmt þeim kjarasamningum sem gilda um kjör launafólks og ætlunin er að ná fram breytingum á. Félagsdómur taldi að löglegt verkfall sem stéttarfélag hefur boðað til bindi alla launþega í viðkomandi starfsgrein og jafnframt þá sem standa utan stéttarfélagsins svo framarlega sem umræddir launþegar vinna á því starfssviði sem kjarasamningur tekur til og vísaði þar til laga 55/1980. Var því talið að verkfallsboðun BÍ tæki til félagsmanna VR og Framsýnar sem sinntu störfum blaðamanna.
Í 1. gr. laga nr. 55/1980 kemur fram að laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, ákvæði kjarasamninga, skuli vera lágmarkskjör í ráðningarsamningi, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því sem samningurinn tekur til. Hæstiréttur hefur margsinnis túlkað lögin og dæmt að það séu heildarkjörin sem þar skuli byggja á við mat á gildi ákvæða ráðningarsamninga. Lög nr. 55/1980 fjalla því eingöngu um að launakjör skv. ráðningarsamningi verði að byggja á kjarasamningi.
Almennt eru engin ákvæði í kjarasamningum um framkvæmd verkfalla eða til hverra verkföll taki. Hvergi í lögskýringargögnum með lögum nr. 55/1980 eða forvera þeirra laga nr. 9/1974 kemur fram að þeim hafi verið ætlað breyta því hverjir megi vinna í verkföllum skv. 18. gr. vinnulöggjafarinnar. Það er ekki heldur hlutverk Félagsdóms að túlka önnur lög en vinnulöggjöfina, lög nr. 80/1938, samkvæmt skýru ákvæði í 44. gr. laganna um hlutverk dómsins, sem er sérdómstól.
Vafasamt er að þessi niðurstaða Félagsdóms standist Mannréttindasáttmála Evrópu sem Ísland er aðili að, en dómstóllinn hefur kveðið upp nokkra dóma í tengslum við félagafrelsi. Í 3. gr. vinnulögjafarinnar kemur fram að einstakir meðlimir stéttarfélaga séu bundnir við löglega gerðar samþykktir og samninga félagsins og stéttarsambands þess, sem það kann að vera í. Þar kemur einnig fram að meðlimur stéttarfélags hættir að vera bundinn af samþykktum félagsins þegar hann er farinn úr því. Í 15. gr. laganna geta aðeins atkvæðabærir félagsmenn tekið þátt í atkvæðagreiðslu um verkfall.
Ýmsar ástæður geta legið fyrir þeirri ákvörðun starfsfólks að standa utan stéttarfélags en skv. 74. gr. stjórnarskrárinnar má engan skylda til aðildar að félagi. Telja verður að ansi langt sé seilst í þessum dómi að starfsmenn, sem kjósa að standa utan stéttarfélags, verði bundnir af ákvörðunum þeirra um verkfallsaðgerðir og þurfi að leggja niður störf kauplaust enda fá þeir engar greiðslur úr verkfallssjóðum. Það að löggjafinn hafi ákveðið að kjarasamningar séu lágmarkskjör fyrir starfsgreinina ætti ekki að hafa áhrif á rétt einstaklings til að ákveða hvort hann vilji vera aðili að stéttarfélagi og vera bundinn af þeim ákvörðunum sem þau taka.
Í máli 19/2019 vísaði Félagsdómur m.a. til dóms Félagsdóms 4/1997 þar sem stefnandi í málinu féllst á varakröfu stefnda, gagnaðila, í málinu í málflutningi. Telja má vafasamt að niðurstaða í máli sem í raun er byggð á vilja stefnanda að ljúka málinu með því að samþykkja tiltekna kröfu stefnda geti falið í sér það fordæmi sem Félagsdómur vísar til.
Engin sekt var dæmd í málinu og því var SA ókleift að kæra niðurstöðu og forsendur dómsins til Hæstaréttar skv. 4. tölulið 67. gr. vinnulöggjafarinnar. Sú ráðagerð dómsins í forsendum hans að heimilt hafi verið dæma stefnda til sektar ef brotið hefði verið stórfellt vekur einnig undrun því engin sektarákvæði eru í lögum nr. 55/1980. Ný túlkun Félagsdóms á lögum nr. 55/1980 og samtenging við vinnulöggjöfina getur því ekki verið gild refsiheimild. Refsiheimildir þurfa skv. 69 gr. stjórnarskrárinnar að vera skýrar og ótvíræðar og ávallt byggjast á lögum.
Mega verktakar vinna í verkfalli?
Já, verktakar sem standa utan stéttarfélaga er bæði heimilt að vinna áfram sín störf og auk þess að ganga í störf verkfallsmanna [JS1] , sbr. dóm Félagsdóms nr. 19/2019 .
Að sama skapi geta fyrirtæki ráðið til sín verktaka sem standa utan stéttarfélaga til að ganga í störf verkfallsmanna að því gefnu að skilyrði verktöku séu fyrir hendi. Sjá hér um skilyrði verktöku.
Mega stjórnendur vinna í verkfalli?
Stjórnendum er heimilt að ganga í störf undirmanna sinna sem eru í verkfalli sbr. m.a. dóma Hæstaréttar í málum nr. 151/1986 (rektor HÍ opnaði fyrir nemendum í verkfalli húsvarða innan BSRB), nr. 287/1989 (umdæmisstjóri Flugleiða afgreiddi farþega í verkfalli flugafgreiðslufólks) og nr. 3/1992 (forstjóri Flugleiða afgreiddi farþega í verkfalli verslunarmanna).
Af fyrrgreindum dómum er ljóst að verkfall takmarkar ekki rétt yfirmanna til að sinna störfum undirmanna sinna í verkfalli. Þeim er það heimilt en almennt verður að gera ráð fyrir að þeir séu ekki félagsmenn í viðkomandi stéttarfélagi eða stéttarfélag þeirra hafi ekki lýst yfir stuðningi við verkfallið.
Hvað telst vera stjórnandi í þessum skilningi?
Líta verður svo á að með stjórnendum sé átt við þá sem hafa á hendi framkvæmdastjórn fyrirtækja eða stjórnun einstakra þátta atvinnurekstrar. Verslunarstjórar, deildarstjórar og aðrir yfirmenn teljast stjórnendur í þessu sambandi, ef þeir hafa stjórnunarábyrgð og virk mannaforráð. Ef stjórnandi fellur undir gildissvið kjarasamnings og er félagsbundinn í stéttarfélagi í verkfalli þá leggur hann niður störf eins og aðrir félagsmenn.
Sömu sjónarmið gilda um verkstjóra. Þeir eru oftast í stjórnendafélögum sem eru utan Alþýðusambands Íslands. Verkstjóra er þess vegna heimilt að ganga í öll störf en getur færst undan ef þau samrýmast ekki starfsskyldum hans skv. ráðningarsamningi.
Hvað með stjórnendur sem eru í stéttarfélagi undirmanna (Eflingu)?
Ef stjórnandi fellur undir gildissvið kjarasamnings og er félagsbundinn í stéttarfélagi undirmanna (Eflingu) leikur vafi á því hvort viðkomandi yrði gert að leggja niður störf í verkfalli. Ef vísað er í kjarasamning verkstjóra í ráðningarsamningi um réttindi og skyldur er rétt að starfsmaður vinni áfram en ef vísað er í kjarasamning undirmanna (Eflingu) eru sterkar líkur til þess að viðkomandi yrði gert að leggja niður störf eins og aðrir félagsmenn.
Mega eigendur og fjölskyldumeðlimir vinna í verkfalli?
Eigendum fyrirtækja verður ekki bannað að vinna í verkfalli án tillits til hvort hann eigi aðild að stéttarfélagi eða sé innan stéttarfélagasambands.
Eigendum er ekki aðeins heimilt að vinna venjubundin störf sín heldur geta þeir einnig gengið inn í störf þeirra starfsmanna sem eru í verkfalli. Í þessu sambandi vísast til dóma Hæstaréttar um rétt stjórnenda til að vinna í verkfalli sem reifaðir eru hér að framan.
Vegna eignarréttarsjónarmiða hlýtur réttur eigenda óhjákvæmilega að verða rýmri en heimildir stjórnenda. Það á því ekki að skipta máli hvort þeir starfa venjulega í fyrirtækinu eða ekki þar sem þeim er í öllum tilvikum rétt að gæta hagsmuna sinna sem eigenda.
Hverjir teljast til eigenda í þessu sambandi?
Eigendur teljast, í þessu sambandi, eigendur einstaklings- og sameignarfyrirtækja sem bera ótakmarkaða fjárhagslega ábyrgð á rekstrinum.
Sama gildir um hluthafa hlutafélaga og einkahlutafélaga sem eiga einir eða ásamt fjölskyldu sinni meirihluta í félaginu eða koma á annan hátt fram sem atvinnurekendur gagnvart starfsmönnum. Almennir hluthafar sem starfa í fyrirtækinu teljast venjulega ekki til eigenda í þessu sambandi.
Hverjir teljast til fjölskyldumeðlima í þessu sambandi?
Með sömu rökum myndi fjölskyldu eiganda fyrirtækis alla jafna vera heimilt að starfa við fyrirtækið í verkfalli, a.m.k. ef fjölskyldan ætti afkomu sína undir viðgangi fyrirtækisins. Í einum dómi Félagsdóms, 4/1964 (28. okt. 1964), er talað um eiganda verslunar og einstaklinga úr skylduliði hans, án þess að það sé skilgreint nánar. Maki og börn eiganda falla vafalaust hér undir og jafnvel foreldrar og tengdabörn. Vegna eignarréttarsjónarmiða eru engin rök til að binda heimildir barna eigenda við ákveðinn aldur.
Fd. 5/2017: Fjórir áhafnarmeðlimir fiskiskips voru fjölskyldumeðlimir eigenda skipsins, þ.e. synir, bræður og tengdasonur eigenda. Þeir voru einnig félagsmenn í stéttarfélagi sem hafi átt aðild að vinnustöðvun. Ekki var talið að neitt hafa komið fram að aðstæður hafi verið með þeim hætti að víkja mætti frá meginreglu 18. gr. laga nr. 80/1938 með vísan til eignaréttarsjónarmiða.
Hvaða áhrif hefur verkfall á launagreiðslur, laun í veikindum og orlof?
Laun til starfsfólks skerðast í verkfalli sem nemur tímum sem ekki eru unnir eða skertu starfshlutfalli. Ef starfsmaður er á frívakt á verkfallsdegi skerðast laun ekki.
Greiða á starfsfólki sem er í verkfalli áunnin laun á venjulegum útborgunardegi, að frádegnum skertum launum vegna verkfallsdaga.
Veikindalaunagreiðslur
Veikindalaunagreiðslur falla niður við upphaf verkfalls eins og venjulegar launagreiðslur um leið og vinnuskylda starfsmanna, sbr. Hrd. 1995:1542. Almenna reglan er að þegar starfsmaður á rétt til launa í forföllum vegna veikinda eða slyss hefst réttindatímabilið við upphaf veikinda eða þegar slys ber að höndum. Verkfall raskar því ekki, heldur veldur því að réttur til forfallalauna glatast á meðan á verkfallinu stendur, sbr. Hrd. nr. 306/1995.
Orlof
Starfsmaður sem verkfall tekur til getur ekki hafið orlofstöku á meðan á verkfallinu stendur. Hann á því ekki rétt á greiðslu orlofslauna í verkfalli, jafnvel þótt ákvörðun um orlof hafi verið tekin fyrir upphaf verkfalls. Um greiðslu orlofslauna mánaðarkaupsmanna sem fá orlof sitt greitt á sama tíma og reglulegar launagreiðslur fara fram, gilda sömu reglur og um útborgun annarra launa í verkfalli. Starfsmenn vinna sér ekki inn rétt til orlofs og orlofslauna á meðan á verkfalli stendur.
Hvað er verkfallsvarsla og hverjir sinna verkfallsvörslu?
Stéttarfélögum er heimil verkfallsvarsla með friðsamlegum aðgerðum til að koma í veg fyrir verkfallsbrot, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 215/2000.
Með verkfallsbroti er átt við að þeir sem vinnustöðvunin beinist að einhverju leyti löglega gegn stuðli að því að afstýra henni með aðstoð einstakra meðlima þeirra félaga eða sambanda sem standa að vinnustöðvuninni, sbr. 18. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.
Hverjar eru heimildir verkfallsvarða?
Hvergi í vinnulöggjöfinni eru ákvæði um verkfallsverði eða verkfallsvörslu.
Verkfallsverðir hafa engar heimildir í lögum eða kjarasamningum til þess að fara inn í atvinnuhúsnæði, einkahúsnæði eða opinbert húsnæði án leyfis eiganda og beita þar ofbeldi eða hindrunum. Húsráðandi eða eigandi er í fullum rétti að vísa þeim burt. Verkfallsverðir mega ekki hindra starfsfólk þótt þeir telji vinnu þess vera brot á verkfalli heldur eiga að bera lögmæti þess undir Félagsdóm.
Nokkur fjöldi dóma er um ólögmæta verkfallsvörslu og hindranir verkfallsvarða, t.d. þegar háskólarektor gekk í starf húsvarðar í verkfalli BSRB en þá lokuðu verkfallsfallsverðir BSRB húsnæðinu með valdi, sjá dóm Hæstaréttar nr. 151/1985. Einnig þegar yfirmenn flugfélags gengu í störf afgreiðslufólks en flugfarþegar voru þá hindraðir í að komast að innritunar borðum, sjá dóm Hæstaréttar nr. 3/1992.
Lögregla hefur almennt ekki afskipti af verkfallsvörðum og því kunna ólögmætar þvingunaraðgerðir af þeirra hálfu síðar að leiða til skaðabótamáls.
Viðskiptavin flugfélags hafa verið dæmdar skaðabætur vegna fjártjóns og miska sem leiddi af hindrun verkfallsvarða. Þeir töku viðskiptavin fangbrögðum og hindruðu að hún kæmist um borð í flugvél á Akueyrarflugvelli, sjá dóm Hæstaréttar í máli nr. 287/1989. Athafnir verkfallsvarða voru einfaldlega refsiverðar að áliti Hæstaréttar.
Félagsmenn sem verkföll beinast að eru hvattir til að hafa beint samband við lögmenn vinnumarkaðssviðs SA ef þeir telja um ólögmæta verkfallsvörslu vera að ræða.
Hvað er verkfall?
Vinnustöðvun í skilningi vinnulöggjafarinnar (laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur) er verkbann atvinnurekenda og verkföll launþega.
Verkföll eru þegar launamenn leggja niður venjuleg störf sín að einhverju eða öllu leyti í því skyni að ná tilteknu sameiginlegu markmiði, sbr. 19. gr. vinnulöggjafarinnar. Stéttarfélagi, sem er samningsaðili, er heimilt að gera verkfall í þeim tilgangi að stuðla að framgangi krafna sinna og til verndar rétti sínum með þeim skilyrðum og takmörkunum sem sett eru í lögum.
Atvinnurekanda er heimilt að ákveða verkbann til þess að vinna að framgangi krafna sinna með áþekkum hætti og stéttarfélagi er heimilt að ákveða verkfall máli sínu til stuðnings. Sjá nánar um verkbönn hér að neðan.
Hvað eru samúðarverkföll?
Samúðarverkfall telst vinnustöðvun eins aðila sem gerð er til stuðnings kröfum annars, sem á í verkfalli. Í 3. tl. 17. gr. vinnulöggjafarinnar segir að óheimilt sé að hefja vinnustöðvun til styrktar félagi, sem hafið hefur ólögmæta vinnustöðvun. Með gagnályktun frá þessari grein fæst sá skilningur að heimilt sé að hefja vinnustöðvun til styrktar félagi sem hafið hefur lögmæta vinnustöðvun.
Samúðarverkföll eru að því leyti ólík öðrum verkföllum að þau miða að því að stuðla að framgangi krafna annars aðila en þess sem stendur að samúðarverkfallinu. Þeir sem fara í samúðarverkfall vonast því ekki til þess að koma fram sínum eigin kröfum heldur kröfum annarra. Sé tilgangurinn sá að knýja fram breytingar á eigin samningum er ekki um samúðarverkfall að ræða og kann slík aðgerð þar af leiðandi að vera ólögmæt. Hér er því um hreina stuðningsaðgerð að ræða. Friðarskyldan kemur samkvæmt þessu ekki í veg fyrir samúðarverkföll.
Er hægt að fresta verkfalli?
Samninganefnd, eða til þess bærum fyrirsvarsmönnum samningsaðila, er jafnan heimilt að aflýsa vinnustöðvun.
Sömu aðilum er einnig heimilt að fresta boðaðri vinnustöðvun, einu sinni eða oftar, um allt að 28 sólarhringa samtals án samþykkis gagnaðila, enda sé frestunin kynnt honum með minnst þriggja sólarhringa fyrirvara. Ekki er átt við að leggja megi saman þau tímabil sem frestun varir þannig að frestunin verði samtals lengri en 28 sólarhringar. Í þessu felst einungis að heimilt er að fresta vinnustöðvun áður en hún hefst og þá með tilskildum 3 sólarhringa fyrirvara. Heimildin gildir ekki eftir að verkfall er hafið.
Verkfalli sem koma á til framkvæmda 1. mars má því fresta einu sinni eða oftar en þó ekki lengur en til 29. mars. Þann dag tekur vinnustöðvunin gildi hafi samningar ekki tekist eða fellur að öðrum kosti niður. Heimildin til frestunar í 28 sólarhringa miðast þannig við upphafsdag boðaðs verkfalls.
Hversu víðtækt þarf verkfall að vera?
Stéttarfélag sem hyggst fara í verkfall ræður því hversu víðtækt verkfallið er, hvort það nái til alls félagssvæðisins eða einungis hluta þess. Verkfall getur einnig falist í því að allir sem vinna þau störf sem kjarasamningur stéttarfélagsins tekur til leggja alfarið niður störf sín.
Hver eru skilyrði þess að hægt sé að beita verkfalli?
Þegar að kjarasamningar eru lausir er uppi hagsmunaágreiningur. Hagsmunaágreiningur er þegar deilt er um það hvaða kaup og kjör skuli gilda á vinnumarkaði eftir að samningur aðila er útrunninn. Hagsmunaágreiningur er annað orð yfir kjaradeilur. Hagsmunaágreiningur/kjaradeila er almennt skilyrði fyrir því að hægt sé að beita vinnustöðvun, verkfalli eða verkbanni.
Hvað gerist ef verkbann er samþykkt?
Þeir starfsmenn sem verkbann beinist gegn ber þá að leggja niður störf með sama hætti og starfsfólk sem verkfall beinist gegn.
Framkvæmdastjórn SA getur veitt undanþágu frá verkbanni, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.
Fær starfsfólk í verkbanni greiðslur úr verkfallssjóði stéttarfélags?
Það ræðst af ákvörðun þess stéttarfélags sem starfsfólk á aðild að hvort það ákveði að bæta félagsfólki sínu sem verkbann beinist gegn tekjutap sitt að hluta eða að öllu leyti.
Geta félagsmenn SA fengið bætur úr vinnudeilusjóði SA ef verkbanni er beitt?
Já. Aðildarfyrirtæki SA geta sótt um bætur úr vinnudeilusjóði ef stöðvun verður á atvinnurekstri þeirra að hluta eða öllu leyti af völdum verkfalls sem boðað er af stéttarfélögum starfsmanna.
Sama gildir um stöðvun atvinnurekstrar af völdum verkbanns á starfsmenn aðildarfyrirtækis enda sé það lagt á af SA eða með samþykki þeirra og í samræmi við ákvæði samþykkta SA.
Sjá nánar um greiðslur úr vinnudeilusjóði SA í 52. og 53. gr. samþykkta SA .