Kvennafrí 2023: Spurt og svarað
Samtök atvinnulífsins hafa lengi beitt sér fyrir jafnrétti á vinnumarkaði og bent á fjölmargar leiðir sem vænlegar eru til árangurs til að útrýma launamun kynjanna. SA hafa einnig verið leiðandi í gerð fræðsluefnis og verkfæra fyrir stjórnendur gegn einelti, kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi á vinnustöðum og hafa hvatt vinnustaði til að gefa skýr skilaboð um að slík hegðun sé ekki liðin og að brugðist verði við gerist þess þörf. Fyrirtæki hafa einnig gengið fram með góðu fordæmi með ásetning um að setja jafnrétti, hagsmuni og velferð starfsfólks í forgang.
Við getum gert betur
Kvennaverkfall 2023 - réttmæt barátta en gæta verður meðalhófs
Hvað er kvennafrídagurinn?
Kvennafrídagurinn er 24. október, baráttudagur sem fyrst var haldinn árið 1975 í tilefni af því að Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna helgaði árið málefnum kvenna. Meginbaráttumálin voru að jafna launamun kynjanna.
Af hverju er þetta heill dagur?
Samkvæmt aðstandendum verkfallsins stendur það í sólarhring þ.e. frá miðnætti til miðnættis þann 24. október. Oftast hefur verið gengið út á ákveðnum tíma kvennafrídagsins til að vekja athygli á launamisrétti kynjanna. Nú er hins vegar gengið lengra og verkfallið boðað í heilan dag. Almennt séð leggur fólk niður störf á eigin ábyrgð og er því launalaust á meðan.
Er þetta verkfall eða frídagur?
Kvennafrídagur er ekki frídagur og konur og kvár taka þátt á eigin forsendum fái þær heimild til hjá sínum atvinnurekanda að leggja niður störf á vinnutíma. Um er að ræða mótmæli/samstöðufund, boðuð af stéttarfélögum launafólks sem verkfall og getur varðað við ákvæði vinnulöggjafarinnar. Þótt stéttarfélögin boði mótmælin sem verkfall þá stendur ekki til að greiða félagsfólki bætur úr verkfallssjóðum félaganna.
Mörg fyrirtæki hafa tök á því að gefa konum og kvárum leyfi á þessum degi. Hins vegar hafa ekki öll fyrirtæki kost á því þar sem starfsemi vinnustaða er fjölbreytt og víða ekki svigrúm til að skerða eða stöðva starfsemi. Mikilvægt er að konur og kvár ræði við sinn atvinnurekanda með góðum fyrirvara vilji þau taka þátt í verkfallinu.
Á starfsfólk rétt á að leggja niður störf?
Nei, starfsfólk sem er með vinnuskyldu umræddan dag ber að mæta til starfa þann dag eins og aðra daga nema atvinnurekandi ákveði annað. Um ólögmætar fjarvistir er að ræða hjá því starfsfólki sem mætir ekki til vinnu án samkomulags.
Mörg fyrirtæki hafa tök á því að gefa konum og kvárum leyfi á þessum degi. Hins vegar hafa ekki öll fyrirtæki kost á því þar sem starfsemi vinnustaða er fjölbreytt og víða ekki svigrúm til að skerða eða stöðva starfsemi. Mikilvægt er að konur og kvár ræði við sinn atvinnurekanda með góðum fyrirvara vilji þau taka þátt í verkfallinu.
Þurfa atvinnurekendur að greiða laun?
Nei, á atvinnurekendum hvílir engin skylda til að greiða starfsfólki laun sem leggur niður störf í kvennaverkfallinu hvort sem það er með samþykki eða án þess. Atvinnurekendum er þó að sjálfsögðu heimilt að koma til móts við sitt starfsfólk umfram skyldu með því að greiða fyrir fjarvistir að hluta eða öllu leyti eða veita starfsfólki sveigjanleika til að vinna af sér fjarvistirnar.
Mitt fyrirtæki á erfitt með að missa konur og kvár úr starfi þennan dag, hvað get ég gert?
Starfsemi margra fyrirtækja er þess eðlis að ekki er hægt að leggja alfarið niður störf eða draga úr starfsemi án þess að starfsemin raskist verulega. Stjórnendur verða að meta út frá starfseminni hvort og þá að hve miklu leyti hægt er að koma á móts við konur og kvár sem hyggjast leggja niður störf þennan dag. Stjórnendur hafa nokkur úrræði t.d. geta þeir veitt leyfi hluta úr degi, boðið starfsfólki að taka orlofsdag eða vinna daginn af sér.
Lendir fyrirtækið mitt á „tossalista“ fái konur og kvár ekki frí þennan dag á launum?
Atvinnurekendum ber ekki skylda til að veita starfsfólki leyfi né að greiða starfsfólki laun þennan dag leggi það niður störf. Konur og kvár leggja niður störf á eigin kostnað nema atvinnurekandi ákveði annað. SA harma að aðstandendur verkfallsins áskilji sér rétt til að setja fyrirtæki á „tossalista“ sem ekki hafa tök á að bjóða starfsfólki sínu frí á launum þennan dag. Flestir atvinnurekendur styðja við kröfur verkfallsins en starfsemi fyrirtækja er misviðkvæm fyrir röskunum og tjóni sem getur orðið umtalsvert bæði efnahagslega og samfélagslega. Því er hvatt til samráðs og samtals á vinnustöðum.