XII. kafli. Vinnudeilur og samningar

38. gr. 


Með aðild að Samtökum atvinnulífsins fela aðildarfélög þeirra svo og einstakir meðlimir þeim umboð til að gera alla kjarasamninga fyrir sína hönd, með þeim takmörkunum einum sem felast í samþykktum þessum. Samtökin eru félag atvinnurekenda í skilningi vinnulöggjafar og fara með allar heimildir sem þau lög áskilja félögum atvinnurekenda. Fyrirtæki í þjónustudeild samtakanna, sbr. 5. gr. teljast ekki félagsmenn í skilningi vinnulöggjafarinnar og eiga ekki aðild að ákvörðunum um vinnudeilur og samninga.

39. gr. 


Stjórn SA markar stefnu fyrir gerð almennra kjarasamninga.

Framkvæmdastjórn SA hefur umsjón með gerð allra kjarasamninga fyrir hönd samtakanna. Framkvæmdastjórnin getur framselt vald sitt til einstakra samninganefnda, starfsmanna SA eða annarra og ákveður hverju sinni hvernig haga skuli forsvari af hálfu samtakanna. Við skipan samninganefnda skal leitast við að tryggja þátttöku þeirra aðildarfyrirtækja sem mesta hagsmuni eiga af hlutaðeigandi samningaviðræðum. Í hverju tilfelli skal gefið út umboð til samningsgerðar, þar sem fram komi hvernig samningsumboði af hálfu SA er háttað og er félögum samtakanna óheimilt að semja við stéttarfélög eða sambönd stéttarfélaga um launa- og kjaramál án formlegrar heimildar framkvæmdastjórnar samtakanna. Til að skuldbinda samtökin og meðlimi þeirra með undirritun kjarasamnings, þarf fullgilt samningsumboð skv. framanskráðu að liggja fyrir.

40. gr. 


Nú standa yfir samningar um launa- og kjaramál við samtök launþega, eða félög þeirra og er þá aðildarfyrirtækjum óheimilt að setja fram tilboð án samþykkis framkvæmdastjórnar eða formlegrar samninganefndar samtakanna.

Samtökum atvinnulífsins, aðildarfélögum þeirra og einstökum félögum er óheimilt að falla frá rétti til að bera ágreiningsmál er tengjast vinnudeilum undir dómstóla. Yfirlýsingar um það efni í tengslum við gerð kjarasamninga eru skv. því óheimilar og gildislausar.

41. gr. 


Eftir undirritun nýs kjarasamnings skal skrifstofa samtakanna senda hann til kynningar til allra aðildarfélaga. Almenna kjarasamninga sem varða ótiltekinn fjölda aðildarfyrirtækja skal birta á vefsíðu samtakanna. Þar skal jafnframt kynnt hvenær tekin verði afstaða til afgreiðslu á samningnum. Jafnframt skal kynna stjórn SA gerð samningsins og helstu efnisþætti.

Heildarkjarasamningar og stefnumarkandi samningar, skv. nánari ákvörðun framkvæmdastjórnar, skulu bornir undir atkvæði félagsmanna í leynilegri atkvæðagreiðslu. Hvað aðra samninga varðar skal því beint til hlutaðeigandi aðildarfélaga að gera skrifstofu samtakanna þegar viðvart sé talin ástæða til að leggja samning undir skriflega atkvæðagreiðslu. Hafi ekki komið fram ósk um slíka atkvæðagreiðslu innan þess frests sem gefinn er, ræður niðurstaða framkvæmdastjórnar hvort atkvæðagreiðsla fari fram. Þó skal jafnan viðhafa atkvæðagreiðslu ef einhver framkvæmdastjórnarmanna óskar eða ef óskir þar um berast frá félagsmönnum sem ráða minnst 1% atkvæða skv. gildandi atkvæðaskrá.

Við atkvæðagreiðslu um kjarasamning ræður fjöldi atkvæða skv. gildandi atkvæðaskrá, sbr. 19. gr. samþykkta þessara. Ef kjarasamningur er gerður vegna tiltekins aðildarfélags og hann einungis borinn undir atkvæði meðlima þess félags, er aðildarfélaginu heimilt að láta atkvæðagreiðslu fara fram skv. eigin félagslögum.

Framkvæmdastjórn ákveður hvort viðhafa skuli póstatkvæðagreiðslu eða greiða atkvæði á kjörfundi og setur nánari reglur um framkvæmd atkvæðagreiðslu.

42. gr.

 
Félagar skulu þegar tilkynna skrifstofu samtakanna, ef þeim berst tilkynning um uppsögn á gildandi samningum. Á sama hátt skal þegar senda skrifstofu samtakanna kröfur þær sem stéttarfélög setja fram svo og kröfur sem aðildarfélög samtakanna áforma að leggja fram.

43. gr. 


Komi upp ágreiningur milli félaga samtakanna og stéttarfélags um kaup og kjör, skilning eða framkvæmd á kjarasamningi sem samtökin eiga aðild að, þá ber að vísa slíkum ágreiningi til umsagnar samtakanna.