Vinnumálastofnun gert að leiðrétta laun í sóttkví

Greiðslur frá Vinnumálastofnun til atvinnurekenda vegna launa í sóttkví voru í vel flestum tilvikum mun lægri en greiða bar. Samkvæmt niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála, í fordæmisgefandi máli sem Samtök atvinnulífsins aðstoðuðu félagsmann sinn við, var framkvæmd Vinnumálastofnunar ekki lögum samkvæmt.

Þegar starfsmenn sæta sóttkví að ákvörðun heilbrigðisyfirvalda, án þess að vera veikir, eiga þeir ekki rétt til launa frá atvinnurekanda. Til að koma til móts við launafólk var ákveðið þegar kórónuveirufaraldurinn skall á, að greiða atvinnurekendum hluta launakostnaðar, greiddu þeir starfsfólki sínu laun í þessum fjarvistum, sbr. lög nr. 24/2020 um greiðslu launa í sóttkví.

Samkvæmt lögunum tekur greiðsla til atvinnurekanda mið af heildarlaunum launamanns í þeim mánuði sem hann eða barn í hans forsjá var í sóttkví. Til að finna út fjárhæð greiðslu fyrir hvern sóttkvíardag á samkvæmt lögunum að miða við 30 daga í mánuði. Í athugasemdum með lögunum er að finna eftirfarandi dæmi til útskýringar á því hvaða greiðslu atvinnurekandi sem greiði starfsmanni laun í sóttkví eigi von á:

„Sem dæmi má nefna launamann sem hefur fengið greiddar 420.000 kr. í laun í þeim mánuði sem hann sætti sóttkví eða 14.000 kr. á dag (420.000/30). Atvinnurekandi fær því greiddar 14.000 kr. fyrir hvern dag sem launamaðurinn er í sóttkví að uppfylltum öðrum skilyrðum. Hafi launamaðurinn verið í sóttkví í 14 daga getur atvinnurekandinn því átt rétt á greiðslu að fjárhæð 196.000 kr. (14.000 x 14).“

Með þessu fyrirkomulagi var ekki farin sú leið að reikna laun starfsmanns fyrir hvern unninn dag hjá atvinnurekanda heldur meðaldaglaun hans alla 30 daga mánaðarins. Á móti skyldi greiða alla daga sem starfsmaður sætti sóttkví, ekki aðeins vinnudagana.

Vinnumálastofnun túlkaði lögin aftur á móti með þeim hætti að fyrirtæki fengju einungis endurgreiðslu fyrir þá daga sem starfsmenn áttu að vinna á sóttkvíartímabilinu. Stofnunin reiknaði hins vegar daglaun starfsmanna með því að deila með 30 í mánaðarlaunin.

Fyrirtækið sem kærði framkvæmd Vinnumálastofnunar fékk einungis endurgreiðslu að fjárhæð 5.668 kr. vegna 14 daga sóttkvíar hjá starfsmanni sem vann aðra hverja helgi og fékk fyrir þá vinnu samtals 85.324 kr. á mánuði. Fyrirtækið borgaði starfsmanninum laun í sóttkvínni að fjárhæð 42.306 kr. og fékk því einungis endurgreiðslu upp á 13,4% og er þá ekki tekið tillit til launatengds kostnaðar.

Kærunefnd velferðarmála var sammála túlkun Samtaka atvinnulífsins sem hefur verið aðgengileg á vinnumarkaðsvef samtakanna frá því að lögin voru samþykkt. Gera verður ráð fyrir að Vinnumálastofnun leiðrétti afgreiðslu umsókna þeirra fjölmörgu fyrirtækja sem sótt hafa um endurgreiðslu á grundvelli laganna. Mörg fyrirtæki sóttu um greiðslur á grundvelli rangrar ráðgjafar Vinnumálastofnunar. Eðlilegt er því að Vinnumálastofnun hafi frumkvæði að því að hafa samband við fyrirtækin og leiðrétti greiðslur.

Sjá nánar:

Umfjöllun á vinnumarkaðsvef SA um sóttkví