Nýsköpunartorg verður haldið í Háskólanum í Reykjavík 

dagana 23. og 24. maí.

Nýsköpunartorgið samanstendur annars vegar af fagráðstefnu um starfsumhverfi og uppbyggingarferli nýsköpunarfyrirtækja og hins vegar sýningu þar sem fyrirtæki og stofnanir kynna árangur í nýsköpun, hindranir, leiðir að árangri, reynslu, vörur og þjónustu; ýmist á sérstöku sýningarsvæði eða í formi stuttra kynninga eða örerinda.

Fagráðstefna

Á föstudeginum verður fagráðstefnan þar sem keyrðar verða samhliða nokkrar málstofur, m.a. um uppbyggingarferli nýsköpunarfyrirtækja og tengda stoðþjónustu s.s. höfundarétt, einkaleyfi og staðla. Hugmyndin er að gestir ráðstefnunnar geti valið sér þá fyrirlestra sem mestan áhuga vekja og kynnt sér það sem fyrirtækin og aðilar úr stoðkerfinu hafa upp á að bjóða á sýningarsvæði. Frítt verður inn á ráðstefnuna en þarf að skrá sig fyrirfram. Tilkynnt nánar síðar.

Sýning

Á laugardeginum verða dyrnar opnar almenningi og öllum þeim sem áhuga hafa á nýsköpun og tækni boðið á Nýsköpunartorgið. Þá mun sýningin sjálf vera í öndvegi en að auki verða margvíslegar uppákomur á og utan hins almenna sýningarsvæðis, m.a. örerindi fyrirtækja í tækni- og hugverkagreinum. Frítt er inn á sýninguna.

Markmið Markmið Nýsköpunartorgsins er að skapa skýra mynd af árangri og uppbyggingu tækni- og hugverkaiðnaðarins og um leið byggja upp sterka og jákvæða ímynd þessara fyrirtækja með því að sýna og segja frá nýsköpun í ólíkum fyrirtækjum.

Samtök iðnaðarins, Rannís, HR, Einkaleyfastofa og Ský og fleiri aðilar sem tengjast nýsköpunarumhverfinu á Íslandi standa fyrir Nýsköpunartorginu.