Starfshópur um leiðbeiningar í samkeppnisrétti kynnir á morgunverðarfundi nýjar leiðbeiningar fyrir fyrirtæki um samkeppnisrétt undir yfirskriftinni Hollráð um heilbrigða samkeppni.

Á fundinum verður boðið upp á stuttar hugvekjur um réttindi og skyldur sem hafa áhrif á starfsemi fyrirtækja að þessu leyti. Útgefendur leiðbeininganna eru Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Lögmannafélag Íslands.

Markmið samkeppnislaga er að tryggja virka samkeppni í viðskiptum og efla þannig nýsköpun, frumkvæði, framleiðslu og þjónustu á sem lægstu verði. Til að ná þessu markmiði hafa samkeppnislög að geyma ýmsar reglur um það sem má og ekki má í hvers kyns samskiptum milli fyrirtækja og eftir atvikum í samskiptum milli neytenda. Gildissvið samkeppnislaga er víðtækt og lögin taka með einum eða öðrum hætti til allra fyrirtækja sem stunda viðskipti hér á landi.

Það er hluti af góðri og faglegri fyrirtækjamenningu að starfa af ábyrgð gagnvart samkeppnislögum og gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að starfsmenn og stjórnendur þekki helstu meginreglur laganna og geti umgengist þær af öryggi frá degi til dags. Leiðbeiningarnar eru því mikið fagnaðarefni og koma til með að hafa mikið notagildi í daglegu amstri stjórnenda fyrirtækja á Íslandi.

Á morgunverðarfundinum þann 24. apríl sem er jafnframt útgáfuhóf leiðbeininganna fá gestir eintak af leiðbeiningunum, morgunverð og gagnlega yfirferð á samkeppnisrétti í formi fjögurra 5 mínútna hugvekja frá vel völdum fagaðilum í samkeppnisrétti.

Skráning fer fram á vef Viðskiptaráðs Íslands og er þátttökugjald kr. 3.900 kr.

Nánari upplýsingar um staðsetningu þegar nær dregur.