Sveitarfélög hafi tækifæri til að taka þátt í atvinnusköpun og létta byrðar

Nokkur umræða hefur skapast um hækkandi verð á fasteignamarkaði að undanförnu í kjölfar vaxtalækkana. Ein afleiðing hækkandi íbúðaverðs er hækkandi fasteignamat sem leiðir til aukinna álaga á fasteignaeigendur í formi skatta og gjalda, ef ekki kemur til samsvarandi lækkunar fasteignaskattprósentu á móti. Aðspurð sögðust nokkur sveitarfélög ætla að bregðast við nýbirtu fasteignamati fyrir árið 2022, sem víða fól í sér miklar hækkanir, með lækkun fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði og er það vel. Minna fór fyrir mögulegum breytingum á sköttum á atvinnuhúsnæði þó þar sé skattprósentan meira en þrefalt hærri að meðaltali en á íbúðahúsnæði og umtalsvert svigrúm til viðbragða. Ekki síst í því ljósi að helmingur sveitarfélaga fullnýtir þegar heimild sína til innheimtu fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði. Þar sem fasteignaskattar hafa enga tengingu við tekjuþróun koma þeir illa niður á þeim fyrirtækjum sem berjast nú í bökkum vegna afleiðinga heimsfaraldursins. Hér geta sveitarfélögin sannanlega létt undir með fyrirtækjum, líkt og einstaklingum, og stutt við atvinnusköpun á komandi misserum.  

Fasteignaskattar eru háir hér á landi  

Skattar á fasteignir sem hlutfall af vergri landsframleiðslu námu 2,1 prósent hér á landi árið 2019, og er það hátt í samanburði við þau lönd sem við berum okkur gjarnan saman við. Til að mynda var samsvarandi hlutfall aðeins 1,5 prósent að meðaltali á Norðurlöndunum sama ár. 

Skattar á atvinnuhúsnæði víða í botni 

Fasteignaskattar sem sveitarfélög innheimta taka mið af fasteignamati og geta þeir mest numið 0,5 prósent af verðmati íbúðarhúsnæðis og 1,32 prósent af verðmati atvinnuhúsnæðis, en sveitarfélögum er jafnframt heimilt að hækka álagningu um allt að 25 prósent umfram áðurnefnd viðmið. Meðalálagning á íbúðarhúsnæði nam 0,43 prósent árið 2020 og 1,47 prósent á atvinnuhúsnæði. Umtalsvert fleiri sveitarfélög fullnýta svigrúmið við álagningu á atvinnuhúsnæði en á íbúðarhúsnæði; af 72 sveitarfélögum fullnýttu 36 heimild sína til álagningar á atvinnuhúsnæði en átta gerðu slíkt hið sama vegna íbúðarhúsnæðis. Alls 62 sveitarfélög leggja að minnsta kosti 1,32 prósent skatt á atvinnuhúsnæði en aðeins 28 að minnsta kosti 0,5 prósent á íbúðarhúsnæði. Í Reykjavík er fasteignaskattur 0,18 prósent af íbúðarhúsnæði en 1,65 prósent af atvinnuhúsnæði, svo dæmi sé tekið.  

Hækkandi álögur á fyrirtæki og heimili 

Þegar mikil hækkun verður á fasteignaverði, og þar af leiðandi fasteignamati, eins og hefur verið undanfarið hækkar skattbyrði einstaklinga og fyrirtækja, að öðru óbreyttu, þrátt fyrir að tekjur af skattlögðu eigninni hafi ekki aukist. Á þetta við um íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði. Bregðist sveitarfélög ekki við hækkandi fasteignamati með lægri álagningarprósentu leiðir þetta af sér að heimilin hafa minna á milli handanna og fyrirtæki minna svigrúm, svo sem til launahækkana, ráðninga eða verðlækkana.  

Leiguverð hefur farið lækkandi þrátt fyrir verðhækkanir á íbúðamarkaði og mörg fyrirtæki upplifað mikið tekjufall vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Þar sem fasteignaskattar hafa enga tengingu við tekjuþróun koma þeir sérlega illa niður á  þeim fyrirtækjum sem berjast nú í bökkum vegna heimsfaraldursins, en ekki síður þeim einstaklingum sem hafa komið þaki yfir höfuð sér með því að festa kaup á húsnæði til eigin nota. Hér geta sveitarfélög lagt sitt af mörkum. 

Borgin hefur notið góðs af fasteignaverðshækkunum 

Að baki fasteignamats Þjóðskrár liggja ríflega 208 þúsund fasteignir og eru 30 prósent þeirra í Reykjavík – eða 62 þúsund. Heildarverðmæti fasteigna í borginni er nú um fjórir milljarðar króna sé tekið mið af fasteignamati eða 40 prósent af heildarfasteignamati ársins 2021 –  samsvarandi hluti tekna sveitarfélaganna af fasteignasköttum rennur því til Reykjavíkurborgar. Ekkert sveitarfélag kemst með tærnar þar sem borgin hefur hælana í þessum efnum, en sem dæmi eru næstflestar fasteignir í Kópavogi og eru þær einungis tæplega 17 þúsund talsins. Eðli máls samkvæmt nýtur borgin því sérstaklega góðs af fasteignaverðshækkunum.  

Tekjur Reykjavíkurborgar af álögðum fasteignaskatti hafa aukist talsvert undanfarin ár að raunvirði og virðist sú þróun ætla að halda áfram þrátt fyrir djúpa efnahagslægð. Árið 2020 námu tekjur borgarinnar af fasteignasköttum rúmum 22 milljörðum króna, sem er aukning upp á rúmlega fimm milljarða á fjórum árum. Aukninguna má nær alla rekja til skatta á atvinnuhúsnæði, eða 72 prósent hennar. Tekjur borgarinnar af atvinnuhúsnæði hafa aukist um 39 prósent frá 2016 á föstu verðlagi, og miðað við fyrirliggjandi fasteignamat má áætla að aukningin muni nema alls 42 prósentárið 2022. Að sama skapi hafa rauntekjur af íbúðahúsnæði aukist um 27 prósent  frá 2016 og munu nema alls 35 prósent árið 2022. 

Þó leiðrétt sé fyrir íbúafjölda hefur skattheimta fasteigna í borginni aukist talsvert á undanförnum árum, eða um 25 prósent að raunvirði frá árinu 2016, en hún var 170 þúsund krónur á íbúa árið 2020. Jafngildir það 34 þúsund krónum aukalega á hvern íbúa. Til samanburðar nam samsvarandi aukning á landinu öllu, að höfuðborginni undanskilinni, 16 þúsund krónum á mann  meðaltali – og voru tekjur á íbúa 123 þúsund krónur árið 2020. Ef spár og áætlanir ganga eftir mun þó hægja á þessari þróun á næstu tveimur árum og fasteignaskattar á íbúa borgarinnar standa nær í stað til ársins 2022 – en verða eftir sem áður mun hærri en tekjur annarra sveitarfélaga að jafnaði 

Háir fasteignaskattar og sveiflur, sem hafa verið einkennandi fyrir íslenskan húsnæðismarkað síðustu ár með tímabilum skorts og mikilla verðhækkana, koma illa niður á bæði einstaklingum og fyrirtækjumSagan sýnir okkur að lægri álögum fylgir öflugra atvinnulíf og aukin hagsæld vinnandi fólks. Mikilvægt er að létta byrðarnar - til að örva framfarir.