Stoppað í gatið

Hvernig sem viðrar í sumar benda allar spár til þess að mjög þungbúið verði yfir hagkerfinu. Væntingar sem margir atvinnurekendur höfðu til þessa árs eru orðnar að engu. Tæp 80 prósent forsvarsmanna fyrirtækja eiga von á tekjutapi á öðrum fjórðungi þessa árs miðað við sama fjórðung í fyrra samkvæmt nýlegri könnun sem framkvæmd var fyrir Samtök atvinnulífsins. Um fimmtungur stjórnenda áætlar að tekjutapið verði 75 prósent eða meira, en í ferðaþjónustu áætla fjórir af hverjum fimm stjórnendum tekjutap af slíkri stærðargráðu. Nær þriðjungur forsvarsmanna fyrirtækja telur að kórónukreppan muni vara lengur en eitt ár.

Þessir stjórnendur hafa flestir neyðst til að grípa til krefjandi aðgerða. Sjaldan eða aldrei hafa jafnmargir þurft að hugsa út fyrir kassann samtímis til að tryggja sér lífsviðurværi. Nú þegar hafa nýjar lausnir á sviði heilsutækni og fjarskipta reynst verðmæt tól í baráttunni við veiruna. Fleiri slíkar nýjungar eru á teikniborðum frumkvöðla víða um heim sem eru þegar farnir að hugsa í lausnum um hvernig best sé að bregðast við þeim breyttu neyslu- og ferðavenjum sem við sjáum fram á í kjölfar farsóttarinnar.

Framtíðin felur þannig í sér tækifæri en til skemmri tíma þurfum við að kljást við alvarlegar afleiðingar áfallsins. Hvernig sem tekst til við að milda höggið er veruleikinn sá að þau verðmæti sem hið opinbera treysti á að yrðu til í nánustu framtíð verða mun minni en áætlanir gerðu ráð fyrir.


Hvernig stoppum við í gatið?

Mikill árangur hefur náðst við lækkun skulda ríkisins á síðustu árum og því hefur skapast svigrúm til lántöku til að fjármagna tímabæra innviðauppbyggingu og fyrirséðan hallarekstur til skemmri tíma. Sértækar aðgerðir eins og hlutabótaleiðin og stuðningslán munu milda sársaukann fyrst um sinn, en framtíðarsýnin þarf að byggja á stefnu sem er uppbyggileg og hvetjandi fyrir atvinnulífið, hvort sem vel árar eða illa.

Hið opinbera er nefnilega ekki sjálfbær rekstrareining í frjálsu samfélagi. Það er rekið með skatttekjum frá þeim sem standa undir verðmætasköpun; atvinnulífinu og einkaframtakinu. Þetta er staðreynd sem oft vill gleymast. Í apríl stóð heildaratvinnuleysi í 18 prósentum samkvæmt Vinnumálastofnun – um 7,5 prósent atvinnuleysi mældist í almenna bótakerfinu en ríflega 10 prósent vegna hlutabótaleiðarinnar. Þeim fjölgar ört sem þiggja tekjur frá ríkinu á meðan þeim fækkar sem standa undir framleiðslu verðmæta. Óljóst er hver staðan verður að sumri loknu en víst er að ekki munu allir geta snúið aftur til starfa.

Áætlað er að áhrif á rekstur ríkissjóðs verði neikvæð um 330 milljarða á árinu 2020 vegna COVID-19. Í kjölfar síðasta fjármálaáfalls var aukin skattheimta talin meðalið við hallarekstri en skattheimta hér á landi er mikil, bæði í alþjóðlegum og sögulegum samanburði. Enn þyngri skattbyrði er ekki valkostur við núverandi kringumstæður. Útgjöld hins opinbera hafa að sama skapi vaxið og stóðu þau í 42 prósentum af vergri landsframleiðslu á árinu 2019. Þetta þýðir að ríki og sveitarfélög ráðstafa nær helmingi þeirra verðmæta sem verða til hérlendis. Umsvifin eru orðin það mikil að einkageirinn mun ekki koma til með að standa undir þeim í ljósi breyttra aðstæðna. Hið opinbera þarf því að hemja útgjöldin og hagræða í rekstri, rétt eins og atvinnurekendur hafa neyðst til að gera.

Til að efnahagslífið geti tekið að blómstra á ný og haldið áfram að fjármagna það velferðarkerfi sem við erum aðnjótandi þarf að standa fyrir aðgerðum sem eru vinsamlegar efnahagslífinu til langs tíma. Stefna stjórnvalda þarf að hvetja til nýsköpunar og fjárfestingar sem að endingu leiða til framleiðslu verðmæta og fjölgunar starfa. Yfirvöld hyggjast auka framlög og ívilnanir til nýsköpunarfyrirtækja, sem er jákvætt, en þegar allt kemur til alls er mikilvægast að almenn rekstrarskilyrði séu fyrirtækjum hagfelld, skattar lágir og regluverk einfalt og skýrt.

Þannig munum við stoppa í gatið.

Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins. Greinin birtist fyrst í Markaðnum þann 10. júní.