Skynsamlegar og tímabærar skattabreytingar

Hugmyndir fjármálaráðherra um breytingar á virðisaukaskattkerfinu og afnám almennra vörugjalda eru skynsamlegar. Verðlagsáhrif breytinganna ættu að verða engin þar sem þær vega hvor aðra upp. Samhliða ætti  að koma sérstaklega til móts við tekjulágt fólk með hækkun húsnæðis- og barnabóta en til mikils er að vinna að einfalda skattkerfið, fækka undanþágum og minnka hættu á undanskotum.

Á meðfylgjandi mynd má sjá á súlunni til vinstri að ef almenn vörugjöld yrðu afnumin,  efra þrep VSK lækkað úr 25,5% í 24,5% og neðra þrepið hækkað úr 7% í 11% þá myndi vísitala neysluverðs lækka um 0,1%. Á súlunni til hægri má sjá að ef almenn vörugjöld yrðu afnumin og efra þrep VSK lækkað úr 25,5% í 24,5%, neðra þrepið hækkað úr 7% í 11% og auk þess yrði skattstofn breikkaður og þá væru áhrifin á vísitölu neysluverðs engin.

Byggt er á gögnum frá Hagstofu Íslands en útreikningar eru efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins. Miðað er við að allar breytingar virðisaukaskatts og vörugjalda skili sér út í verðlagið.

Breytingar á VSK og vörugjöldum 2.jpg

Haldið hefur verið fram að hækkun lægra þreps virðisaukaskatts, t.a.m á matvæli muni koma illa við fólk með lágar tekjur en virðisaukaskattur og breytingar á honum, hentar afar illa til jöfnunar lífskjara.

Rannsóknir Hagstofu Íslands á útgjöldum heimilanna sýna t.d. að þótt matvörur og fleiri vörur séu í lægra þrepi virðisaukaskatts hafi það óveruleg áhrif til tekjujöfnunar. Þótt lágtekjuheimili verji heldur hærra hlutfalli tekna sinna til kaupa á mat- og drykkjarvörum en hátekjuheimili, þá rennur stærri hluti þeirrar krónutölu sem felst í mismun almenna og lægra þrepsins til hátekjuheimila. Það er sérkennileg notkun skattkerfis til tekjujöfnunar. Kostnaður ríkissjóðs við þessa tekjujöfnun er um 5,3 milljarðar króna, þegar 7% skattþrep og 11% skattþrep eru borin saman. Þar af skilar sér aðeins um 1 milljarður króna til þess fjórðungs heimilanna sem lægstar hafa tekjurnar. Um 60% fjárhæðarinnar rennur hins vegar til heimila með tekjur yfir meðallagi. Unnt er að ná má sambærilegum eða meiri tekjujöfnunaráhrifum fyrir tekjulægstu heimilin  með mun minni tilkostnaði, t.d. með hækkun barnabóta eða húsnæðisbóta.

Virðisaukaskattur á Íslandi er sá næst hæsti í heimi og bilið á milli efra og neðra þreps VSK er óvenjuhátt og sker sig frá því sem tíðkast í flestum öðrum ríkjum. Þetta stóra bil hvetur líklega til undanskota og mismunar atvinnugreinum, eftir því í hvoru þrepi varan eða þjónustan lendir.

Því er fullt tilefni til breytinga og í atvinnulífinu er áhersla lögð á að skattkerfið verði sem einfaldast og almennast. Fleiri eru á þeirri skoðun en í mjög vandaðri skattaskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um Ísland árið 2010var hvatt til þess að virðisaukaskattþrepið yrði aðeins eitt og bent á að fleiri þrep valdi óhagræði og tekjutapi fyrir ríkissjóð. Í skýrslunni var lagt til að fjórðungur til þriðjungur tekjuaukans yrði notaður til þess að auka tekjutilfærslur til lágtekjufólks. Það myndi auka jöfnunaráhrif skattkerfisins.  Því mætti ná í áföngum og væri fyrsta skrefið fólgið í því að hækka lægra þrepið á ný í 14% og takmarka það við matvæli. Einnig ætti að afnema ýmsar undanþágur frá kerfinu.

Virðisaukaskattur er langmikilvægasti tekjustofn ríkisins. Í fjárlögum 2014 eru tekjur ríkissjóðs af VSK áætlaðar 160 ma.kr. af 560 ma.kr. skatttekjum eða 28,5%. Það er því mikilvægt fyrir ríkissjóð að rækta þennan skattstofn.