Loftlagsvegvísar atvinnulífsins
Mannvirkjagerð
Mannvirkjagerð
Staðan í dag
Mat á árlegri kolefnislosun íslenskra bygginga lá fyrir í fyrsta sinn árið 2022 þegar vinnu lauk við vegvísinn Byggjum grænni framtíð. Vinna við vegvísinn var framkvæmd á vettvangi samstarfsvettvangs stjórnvalda og atvinnulífs um vistvæna mannvirkjagerð og á rót sína að rekja til aðgerðar C.3 í aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Var því um að ræða fyrsta skiptið þar sem losun, markmið og aðgerðir fyrir vistvæna mannvirkjagerð á Íslandi voru skilgreind með þeim hætti sem vegvísirinn ber vitni um.
Árleg losun íslenskra bygginga er um 360 þúsund tonn CO2-íg. Innbyggt kolefni heildarbyggingarmassans á Íslandi var einnig áætlað og er það u.þ.b. 12.700.000 tonn CO2-íg. Hið mikla magn innbyggðs kolefnis í íslenskum byggingum undirstrikar til hve mikils er að vinna með því að innleiða hringrásarhagkerfið og draga úr auðlindanotkun og úrgangsmyndun með aukinni áherslu á endurnotkun, endurnýtingu og endurvinnslu.
Á heimsvísu er talið að mannvirkjagerð beri ábyrgð á um 30-40% af losun gróðurhúsalofttegunda en upplýsingar um losun mannvirkjagerðar hérlendis hafa hins vegar verið takmarkaðar hingað til. Nánast eini þátturinn í íslenskri mannvirkjagerð sem fellur undir beinar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum er losun frá vinnuvélum á byggingarsvæðum. Árið 2014 var miðað við að sú losun væri um 3% af heildarlosun Íslands. Á vettvangi Byggjum grænni framtíð voru sett markmið um samdrátt í losun til ársins 2030 sem taka á eftirfarandi flokkum:
1. Byggingarefni
2. Framkvæmdasvæði
3. Notkunartími mannvirkja
4. Lok líftíma/Hringrás um aukið endurnýtingarhlutfall byggingar- og niðurrifsúrgangs
Skilgreindar hafa verið 74 aðgerðir í sex aðgerðarflokkum til að ná markmiðum vegvísisins. Þar af er 6 aðgerðum lokið, 38 í vinnslu og 28 ekki hafnar, sbr. uppfærða stöðu aðgerða í maí 2023. Miðað er við að matið, losunin og aðgerðirnar verði endurskoðuð fyrir árslok 2024.
360
þús. tonn
Kolefnislosun frá byggingariðnaði er áætluð 360 þús. tonn CO2-íg/ári. Settar hafa verið 74 aðgerðir til að draga úr þeirri losun.
44
aðgerðir
eru þegar komnar til framkvæmda eða lokið.
Samstillt átak um að breytingar, sem byggist á því að horfa á alla anga mannvirkjagerðar og skapa jákvæða hvata til umbreytingar efnisvals og breyttra aðferða, er nauðsynlegt að árangur náist.- Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri JÁVERKS og formaður Mannvirkjaráðs SI.
Áskoranir
Viðfangsefni Byggjum grænni framtíð felst í að afla upplýsinga um losun mannvirkjagerðar á viðmiðunarári og var þeirri vinnu lokið við útgáfu á þeim vegvísi. Í kjölfarið voru sett markmið um að minnka losun fram til ársins 2030 á grundvelli skilgreindra aðgerða þannig að þau markmið náist og er sú vinna þegar farin af stað.
Markmið um samdrátt í losun til ársins 2030 eru eftirfarandi. Fyrir það fyrsta að ná frá 55% samdrætti í losun vegna byggingarefna. Í öðru lagi losun vegna framkvæmdasvæða, þ.e. 70% samdrætti í losun vegna vinnuvéla á framkvæmdasvæðum. Í þriðja lagi er um að ræða aðgerðir er varða notkunartíma mannvirkja. Þar er annars vegar sett fram markmið um 55% samdrátt vegna endurnýjunar og endurbóta á mannvirkjum og hins vegar um 7,5% samdrátt vegna orkunotkunar. Loks í fjórða lagi markmið og aðgerðir er snúa að lok líftíma og/eða hringrás um aukið endurnýtingarhlutfall byggingar- og niðurrifsúrgangs. Þar eru einnig sett markmið um að minnka magn af byggingar- og niðurrifsúrgangi falli til á hvern byggðan fermetra. Markmiðið er að auka árlegt endurnýtingarhlutfall úr 88% í 95% og jafnframt lækka hlutfall förgunar úr 12% í 5%. Þá er stefnt að því að draga úr úrgangsmagni á hvern byggðan fermetra um 30%.
Grunnforsenda þess að ná fram þeim úrbótum sem stefnt er að er að tryggja að atvinnulíf jafnt sem stjórnvöld axli ábyrgð á þeim aðgerðum sem fyrir liggja og síðar koma til. Þar er jafnt um að ræða umbætur í regluverki og grænum hvötum jafnt sem breytingum hvað varðar ferla hjá fyrirtækjum, s.s. efnisval, meðhöndlun úrgangs, lífsferilsgreiningar, hönnun mannvirkja, tækjabúnaður og orkuskipti svo fáein dæmi séu nefnd.
Aðgerðir í mannvirkjagerð lúta ESR reglugerðinni (e. Effort Sharing Regulation) um sameiginlegar efndir ríkja innan ESB og EES landa um að draga úr gróðurhúsalofttegundum. Undir ESR falla til dæmis losun frá heimilum, þjónustu, samgöngum, landbúnaði, sjávarútvegi, smáiðnaði og úrgangi, eða losun sem kallast jafnan samfélagslosun.
Um samstarfið
Leiðtogi mannvirkjageirans er Gylfi Gíslason framkvæmdastjóri JÁVERKS og formaður Mannvirkjaráðs SI.
Hagaðilar
Framleiðendur, innflytjendur, smásalar, verkfræðingar, arkitektar, hönnuðir, þjónustuaðilar, byggingarverktakar, eigendur eða rekstraraðilar mannvirkja, notendur, fjárfestar, lánastofnanir, fulltrúar frá menntastofnunum og rannsóknarsamfélaginu, aðilar úr opinberri stjórnsýslu.
Hafa samband
Samtök iðnaðarins
Björg Ásta Þórðardóttir, verkefnastjóri loftslagsvegvísis mannvirkjageirans:
bjorg@si.is
360
þús. tonn
Kolefnislosun frá byggingariðnaði er áætluð 360 þús. tonn CO2-íg/ári. Settar hafa verið 74 aðgerðir til að draga úr þeirri losun.
44
aðgerðir
eru þegar komnar til framkvæmda eða lokið.