SA sýknað af kröfu ASÍ um veikindarétt hluta- og vaktavinnufólks

Heimilt er að umreikna veikindarétt hlutastarfsfólks og vaktavinnufólks sem vinnur færri en fimm daga að jafnaði á viku samkvæmt dómi Félagsdóms í máli nr. 11/2020 frá 17. desember sl. Var þar staðfest túlkun Samtaka atvinnulífsins um að greiðslutímabil launa í veikindum sé hið sama og hjá starfsfólki sem vinnur fimm daga að jafnaði á viku.

Ágreiningur hefur verið með SA og ASÍ um nokkurt skeið hvernig túlka eigi veikindarétt hlutastarfsfólks og vaktavinnufólks á fyrsta starfsári sem ávinnur sér inn tvo veikindadaga fyrir hvern unninn mánuð.

Túlkun ASÍ var að starfsfólk eigi alltaf rétt á jafnmörgum veikindadögum án tillits til vinnuframlags. Veikindaréttur væri því lengri eftir því sem starfsmaður ynni færri vinnudaga/vaktir á viku að jafnaði. Samkvæmt túlkun ASÍ nyti starfsmaður eftir 10 mánuði í starfi 4 vikna réttar ef hann ynni 5 daga vikunnar en 20 vikna veikindaréttar ef hann ynni einn dag í viku, þ.e. greiða ætti jafn marga vinnudaga í veikindum óháð vinnufyrirkomulagi.

SA gátu ekki fallist á túlkun ASÍ sem er með öllu ómálefnaleg og myndi stuðla að miklu ójafnræði á vinnumarkaði. Nauðsynlegt væri því að túlka kjarasamningsákvæðin þannig að veikindaréttur starfsfólks á fyrsta starfsári sé ávallt jafn langur í vikum talið án tillits til vinnufyrirkomulags. Greiðslutímabilið sé með öðrum orðum ávallt hið sama.

Félagsdómur var sama sinnis og SA og féllst á varakröfu þeirra um að umreikna megi veikindarétt starfsfólks á fyrsta starfsári sem vinnur færri en fimm daga á viku að jafnaði (ýmist hlutavinna eða vaktavinna) þannig að rétturinn sé jafnlangur og hjá þeim sem vinna hefðbundna dagvinnu fimm daga vikunnar. SA var því sýknað vegna Íslandshótela ehf. af kröfu ASÍ f.h. Starfsgreinasambandsins vegna Verkalýðsfélags Snæfellinga en fyrirtækið hafði reiknað starfsmanni sínum veikindakaup til samræmis við ráðgjöf SA.

Sjá nánar:

Dómur Félagsdóms frá 17. desember 2020 í máli nr. 11/2020

Umfjöllun á vinnumarkaðsvef SA um útreikning veikindaréttar hluta- og vaktavinnufólks