Opnað fyrir umsóknir um tekjufallsstyrki

Opnað hefur verið fyrir móttöku á umsóknum um tekjufallsstyrki vegna tekjufalls rekstraraðila á tímabilinu 1. apríl til og með 31. október 2020. Eftir að umsókn berst á afgreiðsla að taka stuttan tíma, samkvæmt upplýsingum frá Skattinum. Greiðsla á að geta borist umsækjenda innan örfárra daga.

Sótt er um í gegnum þjónustusíður umsækjenda á skattur.is. Ef umsækjandi um tekjufallsstyrk er félag (lögaðili) skráir prókúruhafi sig inn á sína þjónustusíðu og fer þannig inn á svæði félagsins. Sjálfstætt starfandi einstaklingur fer inn í umsóknina í gegnum sína eigin þjónustusíðu.

Skilyrði fyrir tekjufallsstyrk eru nokkuð mörg og fleiri en ein leið til að reikna út bæði tekjufall, rekstrarkostnað og stöðugildi. Allt eru þetta þættir sem skipta sköpum um útreikninga á styrkjunum. Reynt er að fylla út fyrirfram allar þær upplýsingar sem Skattinum er unnt. Þó þurfa umsækjendur sjálfir að gefa upp tilteknar upplýsingar.

Ítarlegar leiðbeiningar um hvernig fylla skal út umsókn má finna hér.

Þá vill Skatturinn koma því á framfæri að umsókn er ekki fullbúin fyrr en búið er að undirrita hana með rafrænum skilríkjum. Nokkur brögð hafa verið að því að dregist hefur hjá umsækjendum um aðra styrki að ganga frá þeim þætti málsins.

Frumskilyrði veitingar tekjufallsstyrks eru sem segir:

» Umsækjandi þarf að bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi

» Atvinnurekstur eða sjálfstæð starfsemi, rekstraraðili greiðir laun skv. staðgreiðslulögum

Önnur skilyrði:

» 40% tekjufall rakið til kórónuveirufaraldurs

» Rekstraraðili sé ekki í vanskilum með opinber gjöld og gögnum skilað