Mesti samdráttur í heila öld - boltinn hjá Seðlabankanum

Myndin af efnahagslegum áhrifum COVID-19 heimsfaraldursins er að skýrast og er dekkri en í fyrstu var talið. Áhrifin eru víðtækari og munu vara lengur. Þetta er meðal þess sem tekið er tillit til við vinnslu nýrrar og uppfærðrar greiningar Samtaka atvinnulífsins, aðildarsamtaka og Viðskiptaráðs Íslands á áhrifum COVID-19 á íslenskt efnahagslíf.

Fá ríki í heiminum eru útsettari fyrir áfalli í ferðaþjónustu en Ísland. Enn ríkir fullkomin óvissa um hvenær erlendir ferðamenn snúa aftur til landsins. Höggið er og verður þungt. Staða atvinnulífsins er þröng, atvinnuleysi fer vaxandi og eftirspurn dregst saman í flestum atvinnugreinum.

Greining SA, aðildarsamtaka og VÍ bendir til þess að samdrátturinn í ár verði sá mesti í heila öld. Þar sem dekkstu sviðsmyndir gætu raungerst er nauðsynlegt að hagstjórnin hafi vaðið fyrir neðan sig og geri ráð fyrir hinu versta. Óskynsamlegt er að ganga út frá of bjartsýnum sviðmyndum.

Stjórnvöld hafa kynnt þrenns konar aðgerðapakka til að styðja við fyrirtæki og heimili í gegnum erfiðasta kaflann. Efnahagssamdrátturinn kemur niður á rekstri ríkissjóðs og við blasir einn mesti hallarekstur ríkissjóðs í að minnsta kosti fjóra áratugi. Svigrúm stjórnvalda til aðgerða er takmarkað og því mikilvægt að forgangsraða frekari aðgerðum.

Boltinn er hjá Seðlabankanum. Þrátt fyrir að bankinn hafi boðað aðgerðir og lækkað stýrivexti til að bregðast við ástandinu er enn svigrúm til frekari lækkana. Mikilvægt er að stjórntæki Seðlabankans verði virkjuð meðan ein dýpsta kreppa sögunnar gengur yfir. Verðbólguhorfur og væntur framleiðsluslaki gefur ekki tilefni til annars en að ætla að frekari tíðinda sé að vænta úr herbúðum bankans í allra nánustu framtíð. Frekari stýrivaxtalækkun er almenn aðgerð sem nær til bæði fyrirtækja og heimila.

Greiningin var unnin áður en tilkynnt var um tilslakanir á komum ferðamanna til landsins en að svo stöddu breytir það ekki stóru myndinni.

Greining Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs vegna áhrifa COVID-19 á íslenskt efnahagslíf má nálgast hér.