Leggja grunn að tvöföldu heilbrigðiskerfi

Samtök atvinnulífsins vara við þeim áformum sem fram koma í reglugerð um endurgreiðslu kostnaðar vegna sjálfstætt starfandi sérfræðilækna í umsögn sinni um málið. Fyrirhugaðar breytingar á reglugerðinni fela í sér niðurfellingu sjúkratrygginga hjá þeim sjúklingum sem sækja sér þjónustu hjá sérgreinalæknum sem innheimta eða taka önnur gjöld af sjúkratryggðum en kveðið er á um í gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands. Sú gjaldskrá byggir á einingakerfi sem komið var á laggirnar fyrir rúmum tveimur áratugum. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan, svo sem vegna nýrrar tækni, stafrænna samskipta og nýrra lyfja.

Að mati SA vinna áformin í reglugerðinni gegn markmiðum stjórnvalda um að tryggja jafnt aðgengi sjúkratryggðra að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Mikilvægt er að ráðast í heildstæða og ítarlega kostnaðar- og þarfagreiningu á þjónustu sérgreinalækna eins og lagt var upp með árið 2013 en hefur enn ekki verið ráðist í þrátt fyrir undirritað samkomulag milli aðila þar um. Á grundvelli þeirrar vinnu verði svo gengið til samninga við sérgreinalækna með jafnt aðgengi sjúklinga að öruggri og góðri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag að leiðarljósi.

Með þeim breytingum sem lagðar eru til í reglugerðardrögunum er verið að svipta þá sjúklinga sjúkratryggingum sem sækja sér þjónustu hjá læknum sem innheimta eða taka önnur gjöld af sjúkratryggðum en kveðið er á um í gjaldskrá Sjúkratrygginga.

Þar sem rammasamningur milli Læknafélags Reykjavíkur og Sjúkratryggingafélags Íslands er útrunninn og gjaldskrárbreytingar eiga sér ekki stað með sama hætti og áður gefur augaleið að þær upphæðir hætta að vera í samræmi við kostnað við veitingu þjónustunnar. Því hafa læknar gripið á það ráð að bæta viðbótargjaldi á ákveðna gjaldskrárliði sem hafa ekki hækkað í takt við verðlag og kostnað við framkvæmd þjónustunnar. Það gjald greiða notendur þjónustunnar. 

Jafnt aðgengi óháð efnahag varpað fyrir róða

Ef reglugerðarbreytingin sem um ræðir nær fram að ganga eru töluverðar líkur á því að þeir gjaldskrárliðir sem ekki lengur standa undir kostnaði, nema án þessa viðbótargjalds muni einfaldlega ekki bjóðast sjúklingum yfir höfuð eða bjóðast án greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga. Þannig verður grunnur lagður að tvöföldu heilbrigðiskerfi þar sem jöfnu aðgengi sjúkratryggðra að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag er varpað fyrir róða. Í staðinn verða þeir sjúklingar sem sækja þjónustu til sérfræðilækna sem innheimta þetta aukagjald sviptir sjúkratryggingum og gert að greiða fyrir þjónustuna að fullu úr eigin vasa. 

Sambærileg þróun hefur þegar átt sér stað á Norðurlöndunum með þeim afleiðingum að sjúkratryggðir eru farnir að kaupa viðbótarheilbrigðistryggingu vegna þess viðbótarkostnaðar sem fellur ekki undir opinbert sjúkratryggingakerfi. Þannig eru þeir sem kaupa slíka viðbótartryggingu betur sjúkratryggðir en aðrir. SA varar við slíkri þróun.