Landssamband eldri borgara og SA leggja áherslu á sveigjanleg starfslok

Samtök atvinnulífsins hittu fulltrúa Landssambands eldri borgara (LEB) fyrr í dag og ræddu við þá áherslur eldra fólks fyrir komandi Alþingiskosningar. Forskrift fimm áherslna LEB eru að eldra fólk vill hafa áhrif á eigið líf. Samtök atvinnulífsins taka heilshugar undir með LEB um mikilvægi þess að auka sveigjanleika við starfslok líkt og fram kom á fundi SA frá því síðasta haust.

Þá er samhljómur með SA og LEB er varðar þróun heilbrigðismála. Hröð breyting á aldurssamsetningu þjóðarinnar á næstu árum felur í sér mikla áskorun fyrir heilbrigðiskerfið. Heilbrigðiskerfi þar sem notandinn er settur í fyrsta sæti og hann hljóti viðeigandi heilbrigðisþjónustu til að tryggja líkamlegt, andlegt og félagslegt heilbrigði og sjálfstætt líf eins lengi og mögulegt er.

Á myndinni með fréttinni má sjá þau Helga Pétursson, Ingibjörgu Sverrisdóttur, Þorbjörn Guðmundsson og Þórunni Sveinbjörnsdóttur ásamt Eyjólfi Árna Rafnssyni, formanni SA og Halldóri Benjamín Þorbergssyni, framkvæmdastjóra SA.