Hlutastarfaúrræðið: Styrkur til launafólks, ekki atvinnurekenda

Undanfarna daga hefur farið fram öfugsnúin umræða um rétt fólks til atvinnuleysisbóta vegna skerts starfshlutfalls. Úrtölufólk fullyrðir að úrræðið feli í sér gjafir skattgreiðenda til fyrirtækja. Það er dapurlegt að einstaklingar skuli finnast sem leggjast svo lágt að stunda slíkar blekkingar, einkum nú þegar samstaða er sérstaklega mikilvæg í baráttunni gegn þeim heimsfaraldri sem gengur yfir og efnahagslegum áhrifum hans.

Úrræðið er beint mótframlag Atvinnuleysistryggingasjóðs til launafólks, rennur beint til þess án milligöngu vinnuveitanda, og er þar með ekki styrkur til atvinnurekenda.

Úrræði stjórnvalda, að veita launafólki tímabundið bótarétt úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna minnkaðs starfshlutfalls án undangenginnar uppsagnar, hefur það meginmarkmið að vernda ráðningarsambandið milli launafólks og vinnuveitenda þeirra eins og frekast er unnt og koma í veg fyrir frekari uppsagnir á almennum vinnumarkaði.

Úrræðið er beint mótframlag Atvinnuleysistryggingasjóðs til launafólks, rennur beint til þess án milligöngu vinnuveitanda, og er þar með ekki styrkur til atvinnurekenda. Atvinnurekandinn greiðir full laun í samræmi við starfshlutfall en launafólk sækir á  móti um bætur til sjóðsins vegna skerðingar á starfshlutfalli. 

Úrræðið hefur reynst launafólki vel eins og tölur Atvinnuleysistryggingarsjóðs sýna. Úrræðið mun einnig flýta efnahagsbata með þeim hætti að þjálfað starfsfólk í hlutastarfi mun fá hækkað starfshlutfall þegar rofar til í efnahagslífinu í stað þess að fyrirtæki þurfi að ráða og þjálfa nýtt starfsfólk.

Úrræðið felur ekki í sér að starfsmenn afsali sér uppsagnarfresti sínum. Þeir eiga þann kost að hafna minnkuðu starfshlutfalli og verður þá sagt upp störfum og fá greidd laun á uppsagnarfresti. Þegar gildistíma úrræðisins lýkur verður almennur réttur þeirra til atvinnuleysisbóta sá sami og áður en gripið var til þess.

Árásir undanfarinna daga á einstaka fyrirtæki, vegna beitingar ofangreinds úrræðis til að vernda starfsfólk sitt, eru í besta falli umhugsunarverðar. Ég vona og trúi því að við metum það ofar að vernda fólkið okkar, tryggja afkomu þess og störf til framtíðar frekar en að leggjast í pólitískar og hugmyndafræðilegar skotgrafir og níða skóinn af fólki og fyrirtækjum.

Nú þurfum við á samstöðu að halda, ekki sundrungu.

Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. apríl 2020.