Greiðsluskjól þurfi að taka gildi sem allra fyrst

„Ég þekki dæmi um fyrirtæki sem geta ekki beðið lengur eftir að komast í greiðsluskjól. Það er stórt hagsmunamál atvinnulífsins að lögin séu undirrituð sem allra fyrst svo þau nái að taka utan um sem flest fyrirtæki,” segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, en frumvarp dómsmálaráðherra um fjárhagslega endurskipulagningu – svokallað greiðsluskjól – handa fyrirtækjum í neyð vegna kórónakreppunnar var samþykkt á þinginu þriðjudaginn 16. júní.  Það er svo undirskrift forseta undir löggjafarmál eða stjórnarerindi sem veitir þeim gildi, en forseti hefur enn ekki undirritað lögin. Forseti hefur frest til 30. júní næstkomandi.

Fyrirtæki sem nýta sér þetta tímabundna úrræði fá tækifæri til að semja við kröfuhafa með fulltingi sérstakt aðstoðarmanns, lögmanns eða löggilts endurskoðanda sem fyrirtækið tilnefnir sjálft sér til aðstoðar. Að uppfylltum ákveðnum skilyrðum geta fyrirtækin fengið greiðsluskjól í allt að ár.

„Markmið laganna er að forða gjaldþrotum fyrirtækja sem hefðu undir eðlilegum kringumstæðum átt góðar framtíðarhorfur. Það er samfélagslega mikilvægt að slík fyrirtæki geti haldið áfram rekstrinum þegar áhrifa óværunnar fer að linna. Þannig verður efnahagsbatinn hraðari,” segir Halldór.

SA bjóða aðildarfyrirtækjum aðstoð lögmanns til að glöggva sig á úrræðinu og hvaða skref þurfi að stíga út frá hagsmunum fyrirtækja í rekstrarvanda og hagsmunum kröfuhafa. Þessa þjónustu veita SA án endurgjalds.