Fundur með félagsmönnum: Fjármálaráðherra sat fyrir svörum

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir mikilvægt að halda áfram að sýna samstöðu í því að klára aðgerðir sem yfirvöld hafa gripið til í tengslum við sóttvarnir. Þá sé lag að keyra innlenda hagkerfið eins hratt í gang og kostur gefst og gera allt sem hægt er til að opna Ísland fyrir umheiminum á öruggan og skynsaman hátt, þó slíkt sé vitaskuld mikilli óvissu háð. Þetta kom fram á fundi félagsmanna Samtaka atvinnulífsins, Viðskiptaráðs og aðildarsamtaka með ráðherranum fyrr í dag, þar sem félagsmönnum gafst kostur á beina spurningum sínum beint til ráðherrans.

Stjórnvöld munu tilkynna um nýjan aðgerðarpakka vegna efnahagslegra afleiðinga faraldursins á allra næstu dögum. Bjarni sagði meðal annars á fundinum að litið yrði sérstaklega til þeirra fyrirtækja sem fengu fyrirmæli frá yfirvöldum um að loka dyrum sínum í því skyni að hefta útbreiðslu veirunnar.

Fleiri fundir með ráðherrum eru ráðgerðir á næstunni fyrir félagsmenn, en Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar-, nýsköpunar- og ferðamálaráðherra, mun sitja fyrir svörum miðvikudaginn 22. apríl. Fundarboð verður sent til félagsmanna innan tíðar.