Fundur með félagsmönnum: Ferðamálaráðherra sat fyrir svörum

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar-, nýsköpunar- og ferðamálaráðherra, segir að þrátt fyrir þær gífurlegu og grafalvarlegu áskoranir sem íslensk ferðaþjónusta stendur frammi fyrir trúi hún því að framtíð greinarinnar sé björt, til lengri tíma litið. Hún segir samt að staðan sé sú að ríkið muni ekki geta bjargað hverju einasta fyrirtæki eftir hin gífurlegu áhrif faraldursins. Þetta og margt fleira kom fram á fundi félagsmanna Samtaka atvinnulífsins, Viðskiptaráðs og aðildarsamtaka með ráðherranum í vikunni, þar sem félagsmönnum gafst kostur á beina spurningum sínum beint til ráðherrans.

Atvinnurekendur hafa margir hverjir kallað eftir því að hin svokallaða hlutabótaleið stjórnvalda verði útvíkkuð, meðal annars með því að ríkið hlaupi enn frekar undir bagga með ferðaþjónustufyrirtækjum sem mörg hver standa frammi fyrir því að hafa engar tekjur af starfsemi sinni vegna veirunnar. Stjórnvöld hafa nú til skoðunar hvernig megi haga aðgerðum af því tagi.

Fleiri fundir með ráðherrum eru ráðgerðir á næstunni fyrir félagsmenn, en Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, mun sitja fyrir svörum á miðvikudaginn næstkomandi, þann 29. apríl.

Fundarboð verður sent til félagsmanna innan tíðar.