Yfir 500 milljarða reikningur á skattgreiðendur vegna lífeyrissjóða hins opinbera

Viðskiptablaðið birtir í dag ítarlega úttekt á ávöxtun lífeyrissjóða á síðasta ári. Þar er m.a. vísað til orða formanns SA, Vilmundar Jósefssonar, um málefni lífeyrissjóðanna í ræðu á aðalfundi SA 2010. Þar segir Vilmundur m.a. að það sé mikið umhugsunarefni að opinberir starfsmenn þurfi ekki að glíma við skerðingu á sínum lífeyri í því árferði sem nú ríkir. Vilmundur bendir á að hjá lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna hafi hrúgast upp skuldbindingar langt umfram inngreiðslur. Sjóðir hins opinbera hafi þannig verið með yfir 500 milljarða króna tryggingafræðilegan halla í árslok 2008 sem sé ávísun á miklar skattahækkanir í framtíðinni.

Ríkisábyrgð er á Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins þannig að lífeyrisgreiðslur eru ekki skertar þrátt fyrir neikvæða stöðu. Vilmundur segir að B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins tæmist um árið 2020 og þá þurfi ríkissjóður að leggja henni til árlega fjármuni sem nemi yfir 1% af landsframleiðslu í meira en áratug en síðan lækki það hlutfall smám saman fram á miðja öldina.

Vilmundur segir þetta vanda sem standi mönnum nær í tíma en margir haldi.

"Vandamálin eru því miklu nær í tíma en oft er talið og stækka ár frá ári á meðan ekki er á þeim tekið. Sá mikli munur sem er á lífeyrisréttindum á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera fær ekki staðist. Á almennum vinnumarkaði þurfa lífeyrissjóðir að rísa undir skuldbindingum sínum og skerða réttindi þegar illa árar en opinberu sjóðirnir eru með ótakmarkaða ábyrgð launagreiðenda og þar með skattgreiðenda. Skattgreiðendur á almennum markaði þurfa því bæði að þola skert lífeyrisréttindi frá eigin sjóðum og skertar ráðstöfunartekjur til viðbótar vegna lífeyrissjóða hins opinbera."

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu 29. apríl 2010.