Vöndum til verka - vinnum saman

Skuldamál heimilanna hafa verið ofarlega á baugi í umræðunni undanfarna mánuði. Samtök atvinnulífsins hafa skilning á aðgerðum til að koma til móts við skuldavanda heimila, einkum hjá þeim sem verst eru settir. Samtökin hafa þó lýst áhyggjum af því að stórfelld almenn niðurfærsla skulda geti haft víðtæk neikvæð áhrif á efnahagslífið, aukið verðbólgu, veikt gengi krónunnar og stuðlað að hærri vöxtum. Fleiri málsmetandi aðilar, svo sem Seðlabankinn, AGS og OECD, hafa tekið í svipaðan streng.

Almenn skuldaniðurfærsla myndi því í raun skapa fleiri vandamál en hún leysti. Svipuð varnaðarorð voru höfð uppi af sömu aðilum gagnvart áformum um hækkun hámarkslána og hámarksveðhlutfalls íbúðalánasjóðs fyrir 10 árum síðan. Á þau varnaðarorð var ekki hlustað með afleiðingum sem nýleg skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðarlánasjóð dregur ágætlega saman. Vonandi taka stjórnvöld mið af þessum aðvörunum nú.

Efnahagslegur stöðugleiki lykilatriði
Óstöðugleiki í íslensku efnahagslífi hefur í gegnum tíðina kostað heimili og fyrirtæki háar fjárhæðir. Besta búbót íslenskra heimila og fyrirtækja er fólgin í að koma á efnahagslegum stöðugleika til langs tíma. Þingheimur ætti því að setja efnahagslegan stöðugleika í forgang svo unnt væri að lækka verðbólgu og vexti og samhliða auka kaupmátt launa. Takist það ekki sem og að bæta stöðu ríkissjóðs verður afnám gjaldeyrishafta fjarlægara en ella. Uppbygging atvinnulífsins mun tefjast, ný störf munu ekki verða til á Íslandi í nægilega ríkum mæli og lífskjör verða síðri en í nágrannalöndum okkar.

Sátt ríki um sjávarútveginn
Endurbætur á fiskveiðikerfinu er einnig brýnt verkefni sem þingmenn verða að kljást við. Í of langan tíma hefur ríkt óvissa um rekstrargrundvöll greinarinnar sem hefur leitt til mikils samdráttar í fjárfestingum í sjávarútvegi. Tækifærin innan greinarinnar eru hins vegar fjölmörg en til að hægt sé að nýta þau þarf að tryggja greininni stöðugleika til lengri tíma og ná sátt um þau veiðigjöld sem greinin greiðir. Íslenskur sjávarútvegur er í mjög sterkri stöðu á alþjóðavísu og Íslendingar eru ein af fáum þjóðum sem reka útveg með hagnaði. Einnig þarf að ná víðtækri sátt um fyrirkomulag kvótakerfisins til næstu framtíðar svo greinin hafi sýn á innri rekstrarskilyrði 20-30 ár fram í tímann. Kvótakerfið þarf að vera hafið yfir pólitískt dægurþras því sjávarútvegurinn er ein af grunnstoðum atvinnulífsins.

Lítil og meðalstór fyrirtæki blómstri
Stöðugt og hvetjandi rekstrarumhverfi fyrirtækja er nauðsynlegt heilbrigðu efnahagslífi. Því skora Samtök atvinnulífsins á þingmenn að skoða allar þær leiðir sem kunna að vera til staðar á kjörtímabilinu til að auðvelda fólki að stofna og reka fyrirtæki ásamt því að njóta ávaxta erfiðis síns. Íslenskt atvinnulíf er byggt upp af litlum og meðalstórum fyrirtækjum og hagvöxtur mun ekki taka kipp fyrr en litlum og meðalstórum fyrirtækjum á Íslandi verða sköpuð hagstæðari skilyrði. Ef hagvöxtur verður áfram lítill á Íslandi næstu misseri verður atvinnuleysi áfram hátt en með 4,5% árlegum hagvexti væri hægt að minnka atvinnuleysið hratt.  Á næstu árum þarf að skapa a.m.k. 10 þúsund ný störf svo hægt sé að koma á fullri atvinnu og mæta vaxandi fjölda fólks á vinnumarkaði. Takist það nemur heildarávinningur hins opinbera um 40 milljörðum króna á ári og því er til mikils að vinna. Við þurfum á auknum fjárfestingum í atvinnulífinu að halda til að efla verðmætasköpun og bæta lífskjör fólks.

Ný vinnubrögð nauðsynleg
Sumarþingi sem er nýlokið olli nokkrum vonbrigðum. Því miður þá stukku þingmenn fljótt í hefðbundnar skotgrafir og áfram var þjóðinni boðið upp á upphlaup úr ræðustól Alþingis í beinni útsendingu. Þessu verður að breyta. Kallað er eftir nýjum vinnubrögðum stjórnar og stjórnarandstöðu og auknu samráði við hagsmunaaðila.

Annar blær hefur verið á Samráðsvettvangi um aukna hagsæld þar sem leiðtogar stjórnmálaflokkanna og ýmsir hagsmunaaðilar ræða stærstu mál þjóðarinnar og leita margvíslegra lausna. Starf samráðsvettvangsins byggir á skýrslu McKinsey sem kom út haustið 2012 en þar var bent á tvö lykilatriði. Að fulltrúar atvinnulífs og stjórnvalda þurfi að vinna betur saman og að hagsæld þjóðarinnar og betri lífskjör muni byggja á auknum hagvexti. Það ætti því að vera lykilatriði í efnahagslegri umræðu á næstu misserum hvernig hægt er að efla hagvöxt með sjálfbærum hætti.

Mörg brýn verkefni bíða alþingismanna í haust þegar þeir snúa til þings á ný. Skuldastaða ríkissjóðs er erfið, verulega hefur hægt á efnahagsbatanum hér á landi, fjárfesting er allt of lítil og enn sér ekki til lands með afnám gjaldeyrishafta svo nokkuð sé nefnt. Samtök atvinnulífsins óska þeim góðs gengis við að leita lausna sem geta aukið samkeppnishæfni þjóðarinnar og bætt lífskjör á næstu árum. SA eru reiðubúin til samstarfs í þeim efnum.

Í okkar höndum
Aðilar vinnumarkaðarins standa líkt og þingmenn frammi fyrir stórri áskorun. Að bæta vinnubrögð við gerð kjarasamninga og leita sameiginlegra lausna sem tryggt geta fólki aukinn kaupmátt með hóflegum hækkunum launa, lágri verðbólgu og stöðugu verðlagi. Flestir samningar á almennum vinnumarkaði renna út í lok nóvember og samningar opinberra aðila skömmu síðar. Það kemur því brátt í ljós hvort þetta tekst en með samstilltu átaki þar sem vandað er til verka er hægt að ná skynsamlegri niðurstöðu og leggja grunn að nýju framfaraskeiði.

Þorsteinn Víglundsson

Af vettvangi í júlí 2013