Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,9% frá fyrra mánuði

Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í ágúst 2008 hækkaði um 0,9% frá fyrra mánuði og er 312,8 stig. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 280,8 stig og hækkaði hún einnig um 0,9% frá júlí. Verð á bensíni og olíum lækkaði um 3,9% en verð á mat og drykkjarvörum hækkaði um 1,8%. Sumarútsölum er að ljúka og hækkaði því verð á fötum og skóm um 4,7%. Kostnaður vegna eigin húsnæðis lækkaði um 0,3% m.a. vegna lækkunar á markaðsverði en verð á efni til viðhalds húsnæðis hækkaði um 6,3%. Síðastliðna 12 mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 14,5% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 14,6%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,8% sem jafngildir 11,5% verðbólgu á ári eða 10,9% fyrir vísitöluna án húsnæðis.

Sjá nánar á vef Hagstofunnar