Vísbending um kólnun fasteignamarkaðar?

Vísitala neysluverðs hækkaði sem kunnugt er um 0,68% milli nóvember og desember 2007 og varð hækkun ívið meiri en greiningardeildir bankanna höfðu spáð (0,4 - 0,6%). Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 5,9%, en vístala neysluverðs án húsnæðis um 2,6%. Fastskattavísitala VNV hefur á hinn bóginn hækkað um 7,7% síðastliðna tólf mánuði og fastskattavísitala án húsnæðis um 5,0%.

Helstu liðir sem valda hækkun að þessu sinni eru ýmsar dagvörur (0,19% vísitöluáhrif), húsnæði (0,20%) og rekstur bifreiðar (0,20%). Það jákvæða við mælinguna að þessu sinni er að húsnæðisliður vísitölunnar hækkar ekki meira en annað verðlag og er því ekki leiðandi í verðhækkunum. Meginhluti hækkunar húsnæðisliðarins var sem fyrr vegna hærri kostnaðar eigin húsnæðis (0,17% áhrif á vísitölu). Þessi kostnaðarhækkun var þó að mestu vegna hækkunar vaxta (0,13% áhrif), en hækkun á markaðsverði húsnæðis var mun minni en undanfarna mánuði (0,04% vísitöluáhrif).

Á myndinni hér að neðan eru sýndar mánaðarlegar breytingar á undirvísitölu húsnæðis í vísitölu neysluverðs frá árinu 2004 samkvæmt þeirri flokkun sem Hagstofan styðst við (3ja mánaða hlaupandi meðaltal). Ljóst virðist að hækkanir fasteignaverðs stefni niður á við og hugsanlega eru þær við það að stöðvast í bili. Hækkanir á höfuðborgarsvæðinu voru heldur minni í desember (0,7%) en í nóvember (0,8 - 1,4%). Það skiptir ekki síður máli að 1,5% verðlækkun varð á landsbyggðinni samanborið við 2,5% verðhækkun í nóvember. Fasteignamarkaðurinn kólnaði raunar verulega á síðari hluta síðasta árs, en hækkana tók síðan að gæta á ný snemma á þessu ári. Þá er samkvæmt nýjustu tölum ennþá mjög mikil velta á fasteignamarkaði og t.d. mun meiri en á sama tíma í fyrra. Er því e.t.v. ótímabært að fullyrða að hækkunarbylgjan sé afstaðin um sinn, þótt aðstæður á fjármálamörkuðum séu nú verri en þá var. Það vekur auk þess athygli við skoðun á opinberum upplýsingum um þróun fasteignaverðs hve breytingar eru sveiflukenndar milli mánaða og vekur það spurningar um áreiðanleika þeirra.

Undirvísitala húsnæðis í vísitölu neysluverðs
- Hlutfallsleg breyting frá fyrra mánuði -Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu!