Virkjum kraft kvenna – skráning í fullum gangi

Boðið verður upp á fjölbreytta og glæsilega dagskrá á námsstefnunni Virkjum kraft kvenna sem fram fer á Hótel Nordica fimmtudaginn 11. janúar næstkomandi. Fjallað verður um konur og stjórnun fyrirtækja út frá ýmsum sjónarhornum en námsstefnan er bæði ætluð körlum og konum. Hvaða eiginleikum eru leiðtogar gæddir, hvernig stjórnendur eru konur, hvaða skyldur fylgja stjórnarsetu og hvað ræður vali í stjórnir? Leitað verður svara við þessum spurningum og fleirum þann 11. janúar. SA ásamt iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti og Félagi kvenna í atvinnurekstri standa að námsstefnunni.

Leiðtogar og umræður

Námsstefnan hefst klukkan 8:00 með morgunverði og skráningu. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra Jón Sigurðsson setur námsstefnuna, en að því loknu mun nýr rektor Háskólans í Reykjavík, Svafa Grönfeldt, stíga á stokk og ræða um leiðtoga og hlutverk þeirra. Öflugir stjórnendur munu ræða um konur og stjórnun ásamt því að segja eigin reynslusögur - í umræðum taka þátt Elín Sigfúsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbanka Íslands, Hafdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Lauga Spa, Hrönn Greipsdóttir, hótelstjóri Radisson SAS Hótel Sögu og Steinunn Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Glitnis í London.

Skyldur og ábyrgð

Lilja Dóra Halldórsdóttir lögfræðingur, MBA, aðjúnkt við viðskiptadeild HR, mun á námsstefnunni fjalla um skyldur og ábyrgð stjórnarmanna í hlutafélögum. Hildur Petersen, stjórnarformaður SPRON og Kaffitárs, mun ræða um konur og stjórnarsetu og þá munu fara fram umræður um val í stjórnir. Í þeim taka þátt Benedikt Jóhannesson, framkvæmdastjóri Heims, Jafet S. Ólafsson, stjórnarmaður VBS fjárfestingarbanka og Þorkell Sigurlaugsson framkvæmdastjóri þróunarsviðs HR.

Námsstefnustjóri er Þóranna Jónsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Vistor. Þátttökugjald er kr. 2.500 með morgunverði og kaffi. Nauðsynlegt er að skrá þátttöku á vef SA.

Smellið hér til að skrá þátttöku.

Virkjum kraft kvenna - dagskrá (PDF-skjal).