Virkjum fólk til verka - átak hefst 15. febrúar

Samtök atvinnulífsins telja mikilvægt að störfum fjölgi á vinnumarkaði og atvinnuleysi minnki. Einn þáttur í því er að  koma því fólki til vinnu sem vill og getur unnið. Samtöl við stjórnendur fyrirtækja gefa til kynna  að víða séu óunnin verk og þrátt fyrir djúpa kreppu undanfarinna þriggja ára sé þörf fyrir starfsfólk á tilteknum sviðum. Vegna óvissu og mikils kostnaðar veigri fyrirtæki sér hins vegar við að taka af skarið og ráða fólk. Markmið nýs átaks aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda er að tryggja 1500 atvinnuleitendum vinnu eða starfstengd úrræði, en ef fyrirtæki ráða fólk af atvinnuleysisskrá í ný verkefni, fylgja þeim fullar atvinnuleysisbætur í tiltekinnn tíma.

Skrifað var undir yfirlýsingu aðila vinnumarkaðarins og fulltrúa stjórnvalda um átakið 16. desember síðastliðinn. Átakið má ekki raska samkeppni eða leiða til misnotkunar af hálfu fyrirtækja eða einstaklinga. Í boði er að ef ráðið er fólk af atvinnuleysisskrá í ný verkefni, fylgi þeim fullar atvinnuleysisbætur. Stuðningurinn ræðst af því hve lengi sá sem ráðinn er hefur verið atvinnulaus. Þannig mun einstaklingi sem er búin að vera atvinnulaus lengur en eitt ár, fylgja atvinnuleysisbætur í eitt ár til fyrirtækis sem ræður hann, eða sem svarar til 2 milljóna króna meðgjafar.

Framkvæmdin byggir á að nýta betur úrræði Vinnumálstofnunar m.a. á sviði reynsluráðninga og starfsþjálfunar. Mismunandi skilyrði eru sett eftir því hvert form ráðningar er. Sem dæmi  má nefna að þegar fyrirtæki ráða starfsmann til reynslu með stuðningi Vinnumálastofnunnar fær fyrirtækið sem svarar til atvinnuleysisbóta í allt að sex mánuði en skuldbindur sig til að ráða viðkomandi til jafnlangs tíma til viðbótar. Reynslan sýnir að stór hluti þess fólks sem gefst slíkt tækifæri kemst í varanlegt starf í framhaldi af því.

Fulltrúar samtaka atvinnurekenda hafa tekið þátt í að undirbúa þetta átak. Þeir sem hafa hugmynd að verkefni  hægt væri að gera undir þessum formerkjum eru hvattir til að hafa samband við eftirfarandi aðildarsamtök; SI, SAF, SVÞ, SF, LÍÚ eða SA. 

Stefnt er að því að verkefnið fari á fulla ferð 15. febrúar næstkomandi og þá verði allir lausir endar hnýttir varðandi framkvæmd þess en enn er unnið að útfærslu þess.

Nánari lýsingar um úrræði Vinnumálastofnunar er að finna á vef Vinnumálastofnunar.

Tveir starfsmenn Vinnumálastofnunar sinna þessu verkefni sérstaklega, Hafliði Skúlason og Guðríður Hálfdanardóttir. Netföng þeirra eru haflidi.skulason@vmst.is, og gudridur.halfdanardottir@vmst.is

Tengt efni:

Samstarf um aðgerðir gegn langtímaatvinnuleysi