Virkjum fjármagn kvenna

Föstudaginn 28. mars efna Samtök atvinnulífsins, Félag kvenna í atvinnurekstri, iðnaðarráðuneytið og viðskiptaráðuneytið til námstefnu um konur, fjármagn og rekstur fyrirtækja. Yfirskrift námstefnunnar er Virkjum fjármagn kvenna. Meðal fyrirlesara er sænska athafnakonan Karin Forseke en hún er fyrsta kona heims til að stýra fjárfestingarbanka. Karin var forstjóri sænska fjárfestingarbankans Carnegie á árunum 2003-2006 og ein fárra kvenna í forstjórastóli fyrirtækja í kauphöllinni í Stokkhólmi. Karin er stjórnarmaður í breska fjármálaeftirlitinu (FSA) og hefur áratugareynslu af fjármálamörkuðum á Norðurlöndunum, í Bretlandi og Bandaríkjunum.

Dagskrá hefst með skráningu og léttum morgunverði frá kl. 8-8:30 en þá setur viðskiptaráðherra Björgvin G. Sigurðsson námstefnuna. Karin Forseke fjallar um reynslu sína úr fjármálageiranum og mikilvægi þess að konur hasli sér völl innan hans. Halla Tómasdóttir stjórnarformaður Auðar Capital fjallar um mikilvægi þess að konur fari fyrir fé og í umræðum um konur og fjármálageirann taka þátt Bjarni Ármannsson fjárfestir, Jón Scheving Thorsteinsson stjórnarmaður Arev Securities, Karin Forseke og Kristín Pétursdóttir forstjóri Auðar Capital.

Síðari hluti námstefnunnar snýr að konum og rekstri fyrirtækja. Þá mun Guðrún Björk Bjarnadóttir, lögmaður hjá SA, fjalla um leiðina inn í stjórnir fyrirtækja, Margrét Guðmundsdóttir, forstjóri Icepharma, segir frá því hvers vegna hún fjárfesti í eigin fyrirtæki og Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis færir rök fyrir því að Business is beauty!

Í umræðum um konur og fyrirtækjarekstur taka þátt, Margrét Kristmannsdóttir formaður FKA, Þórólfur Árnason forstjóri Skýrr, Skarphéðinn Berg Steinarsson forstjóri Landic Property og Elín Jónsdóttir framkvæmdastjóri Arev Securities.

Námstefnustjóri er Þóranna Jónsdóttir, Auði Capital.

Þátttökugjald kr. 3.500 með léttum morgunverði og kaffi - dagskrá verður lokið ekki síðar en kl. 12:00.

Námstefnan er framhaldsnámstefna Virkjum kraft kvenna sem fram fór 11. janúar 2007 á Hilton Reykjavík Nordica.

Smellið hér til að skrá þátttöku

Dagskrá námstefnunnar (PDF)