Vinnustaðaskírteinin víðast hvar í góðu lagi

Þrír mánuðir eru nú liðnir frá því samkomulag Samtaka atvinnulífsins (SA) og Alþýðusambands Íslands (ASÍ) um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum tók gildi. Markmiðið með útgáfu slíkra skírteina er að vinna gegn svartri atvinnustarfsemi og undirboðum á vinnumarkaði. Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag en þrír mánuðir voru gefnir í aðlögunartíma þar sem eftirlitsfulltrúar hafa leiðbeint atvinnurekendum. Samkomulagið nær til að byrja með til byggingastarfsemi, mannvirkjagerðar og rekstrar gististaða og veitingahúsa.

Eftir 15. nóvember sl. áttu allir atvinnurekendur í fyrrgreindum greinum að vera búnir að útvega skírteini fyrir viðkomandi starfsmenn sína. Verði einhver misbrestur á útgáfunni fá fyrirtæki frest til að bæta úr. Ef ekki er farið að þeim tilmælum er tilkynning send Vinnumálastofnun. Fjöldi útgefinna skírteina liggur ekki fyrir en atvinnurekendur sjá sjálfir um útgáfuna eða fá fyrirtæki til þess að prenta skírteinin.

Í umfjöllun Morgunblaðsins í dag kemur fram að innleiðing skírteinanna hafi almennt gengið vel:

"Eftirlitsfulltrúar á vegum SA og ASÍ, sem Morgunblaðið ræddi við, segja þetta fyrirkomulag almennt hafa gefist vel og atvinnurekendur hafi fengið góðan tíma til að kynna sér þetta. Í heimsóknum á vinnustaði hafi þeim verið vel tekið en til þessa hefur mestur tími farið í leiðbeiningar og aðstoð við innleiðingu skírteinanna.

Vilhjálmur Sveinsson hjá Fagfélaginu (áður Trésmiðafélag Reykjavíkur og Félag byggingarmanna Eyjafirði) segir vinnustaðaeftirlit í raun hafa verið í gangi í mörg ár, en mikilvægur áfangi hafi náðst í sumar með útgáfu á sérstökum vinnustaðaskírteinum. Í byggingargeiranum séu stóru fyrirtækin almennt í góðum málum en hjá minni fyrirtækjum og einyrkjum eru málin sögð "í vinnslu", eins og það hefur verið orðað í eyru eftirlitsmanna.

"Samtök atvinnulífsins hafa verið að kynna þetta og kannski átt erfitt með að nálgast einyrkja eða minni fyrirtæki sem ekki eru innan samtakanna. En á heildina litið hefur þetta komið vel út," segir Vilhjálmur en eftirlitsfulltrúar hafa verið reglulega á ferðinni að undanförnu, minnst einu sinni í viku, og fulltrúar SA verið í daglegum ferðum. Sigurður Steinarsson hjá Rafiðnaðarsambandinu tekur undir með Vilhjálmi og segir eftirlitið hafa gengið vel. "Atvinnurekendur hafa tekið okkur vel og ég hef aldrei lent í neinu ströggli," segir hann."

Fulltrúar á vegum Samtaka atvinnulífsins tóku til starfa í byrjun mánaðarins til að vinna gegn svartri atvinnustarfsemi og fylgja samkomulaginu eftir. Upplýsingar um þá má nálgast hér að neðan auk ítarlegra upplýsinga um vinnustaðaskírteini.

Sjá nánar:

Upplýsingar um fulltrúa SA

Upplýsingavefur um vinnustaðaskírteini - www.skirteini.is