Vinnustaðaskírteini ná til fleiri atvinnugreina

Í tengslum við gerð nýs kjarasamnings á milli Samtaka atvinnulífsins og aðildarsamtaka ASÍ þann 5. maí sl. var undirritað viðbótarsamkomulag um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum sem felur í sér að skyldan til að bera vinnustaðaskírteini nær nú til fleiri atvinnugreina en áður.

Með viðbótarsamkomulaginu er gildissviðið útvíkkað þannig að skyldan til að bera vinnustaðaskírteini nær nú til eftirtalinna: Söluturna, húsgagna- og innréttingaiðnaðar, gleriðnaðar og skyldrar starfsemi, kjötiðnaðar, baksturs, bílgreina, ýmissa málm- og véltæknigreina, fjarskipta- og upplýsingastarfsemi og öryggisþjónustu.

Sama gildir um atvinnurekendur og starfsmenn þeirra sem ekki eru taldir upp hér að framan en vegna vinnu sinnar sinna verkefnum í slíkum fyrirtækjum þegar þeir eru þar við störf. Fyrir breytinguna náði samkomulagið til atvinnurekenda og starfsmanna þeirra sem vinna við byggingastarfsemi og mannvirkjagerð, rekstur gististaða eða veitingarekstur.

Á árinu 2012 koma fleiri atvinnugreinar til með að falla undir samkomulagið. Þá hafa samningsaðilar ákveðið að fela Staðlaráði Íslands gerð staðals um vinnustaðaskírteini. Stefnt er að því að vinnu við staðalinn ljúki fyrir lok árs 2011. Með staðlinum verður gerð sú krafa að starfsheiti viðkomandi starfsmanns komi fram.

Nánari upplýsingar um vinnustaðaskírteini má finna hér: www.skirteini.is