Vinnustaðaeftirlit og vinnustaðaskírteini - allar upplýsingar á www.skirteini.is

Þann 15. ágúst næstkomandi tekur gildi samkomulag SA og ASÍ um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum. Samkomulagið byggir á lögum nr. 42/2010 um sama efni  sem veita heildarsamtökum vinnumarkaðarins heimild til að semja um  hvaða starfsgreinar falli undir gildissvið laganna hverju sinni. Öllum atvinnurekendum í hlutaðeigandi greinum ber að sjá til þess að starfsmenn fái vinnustaðaskírteini þegar þeir hefja störf.

Hverjir falla undir?
Byggingastarfsemi, mannvirkjagerð, rekstur gististaða og veitingarekstur  fellur undir gildissvið samkomulagsins og er miðað við ÍSAT2008 flokkun atvinnurekanda í fyrirtækjaskrá RSK. Samkomulag SA og ASÍ afmarkar einnig hvaða starfsmenn innan þessara atvinnugreina falla undir eftirlitið.

Eftirlit á vinnustöðum
Markmið vinnustaðaskírteina og eftirlits á vinnustöðum er að tryggja að atvinnurekendur og starfsmenn þeirra fari að gildandi lögum, reglugerðum og kjarasamningum. Samráðsnefnd SA og ASÍ hefur  veitt sérstökum eftirlitsfulltrúum heimild til að annast eftirlit og hafa þeir rétt skv. l. nr. 42/2010 til aðgangs að vinnustöðum og heimild til að krefja atvinnurekanda og launamenn hans um að sýna vinnustaðaskírteini. Skulu þeir skrá niður upplýsingar og senda áfram til opinberra aðila s.s. RSK og Vinnumálastofnunar.

Gerð vinnustaðaskírteina
Atvinnurekandi skal útbúa eða láta útbúa kort sem hefur að geyma upplýsingar sem tilgreindar eru í lögum og samkomulagi SA og ASÍ. Nálgast má dæmi um skírteini á www.skirteini.is en einnig upplýsingar um aðila sem bjóða upp á prentun plastkorta.


Samkomulag SA og ASÍ um vinnustaðaskírteini var undirritað þann 15. júní 2010 og var af því tilefni opnaður sérstakur upplýsingavefur um vinnustaðaskírteini og allt sem þeim viðkemur: www.skirteini.is.

Við undirritun samkomulags SA og ASÍ sagði Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, m.a. að Samtök atvinnulífsins leggi áherslu á að innleiðing vinnustaðaskírteina verði með jákvæðum formerkjum og að vinnustaðaeftirlit verði bæði hagkvæmt og sveigjanlegt. Fyrirtæki sem taki upp vinnustaðaskilríki gefi í raun út yfirlýsingu um að þau séu með sín mál í lagi - þau fari að lögum og reglum og virði kjarasamninga. Það sé mikilvægt að öll fyrirtæki sitji við sama borð og spili eftir sömu leikreglunum en vinnustaðaskírteinum er m.a. ætlað að vinna gegn svartri atvinnustarfsemi.

Af hálfu samningsaðila er lögð áhersla á að fyrstu þrjá mánuði eftir gildistöku samkomulagsins verði hlutverk eftirlitsfulltrúanna einkum að veita atvinnurekendum, sem undir eftirlit falla, upplýsingar um samkomulagið  ásamt hvatningu um hrinda því í framkvæmd.

Sjá nánar:

Upplýsingavefur um vinnustaðaskírteini: www.skirteini.is

Frétt um samkomulag SA og ASÍ um vinnustaðaskírteini frá 15.6.2010

Lög um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum