Vinna hafin við úttekt á stöðu aðildarviðræðna við Evrópusambandið

Í lok september sl. var tilkynnt að Alþýðusamband Íslands, Félag atvinnurekenda, Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands hygðust standa fyrir úttekt á aðildarviðræðum við Evrópusambandið, þróun ESB og valkostum í efnahagsmálum. Samtökin hafa nú undirritað samning við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands um ritstjórn og umsjón úttektarinnar.

Markmið verkefnisins er að leggja mat á stöðu aðildarviðræðna Íslands og Evrópusambandsins, að greina þau álitaefni sem eru til staðar og þá kosti sem eru í stöðunni. Þá verður fjallað um þróun Evrópusambandsins síðan aðildarviðræðurnar hófust með sérstakri áherslu á gjaldmiðilssamstarfið. Sérstakt mat verður einnig lagt á hvernig hefja mætti aðildarviðræður við ESB að nýju ef vilji stendur til þess. Þá verður lagt mat á EES samninginn og þá möguleika og takmarkanir sem í honum felast.

Alþjóðamálastofnun mun nýta breiðan hóp fagaðila með sérþekkingu á þeim ólíku sviðum sem tekin verða til skoðunar í úttektinni. Gert er ráð fyrir að vinnan fari fram á næstu fimm mánuðum og verður úttektin kynnt opinberlega  næsta vor.

Það er mat þeirra samtaka sem að verkefninu standa að hlutlæg og greinargóð úttekt af þessu tagi sé lykilforsenda þess að hægt sé að meta hvaða valkostir séu best til fallnir að tryggja samkeppnishæfni atvinnulífsins til lengri tíma og um leið skapa sem best lífskjör fyrir heimilin í landinu.

Aðferðafræði og fyrirkomulag úttektarinnar

Sérfræðingar Alþjóðamálastofnunar munu hafa yfirumsjón með að afla þeirra gagna sem þarf til þess að leggja mat á þá kafla sem hefur verið lokað (til bráðabirgða) og einnig þá kafla sem hafa verið opnaðir og samningsafstaða Íslands liggur fyrir. Skýrsla utanríkisráðuneytisins frá apríl 2013 verður meginheimildin í þessum kafla, en einnig verður stuðst við gögn sem nálgast má á vidraedur.is til þess að leggja mat á ýmis álitamál sem komið hafa upp við mótun samningsafstöðu Íslands.

Samhliða þessu munu sérfræðingar Alþjóðamálastofnunar útbúa minnisblað sem sent verður á hagsmunaaðila sem tengjast viðræðunum. Í þessu minnisblaði verður verkefnið útlistað ásamt því að kynna sérstaklega hvaða spurningum verður leitast við að svara í þeim kafla sem snýr að viðkomandi hagsmunaaðila. Tekin verða viðtöl við hagsmunaaðila þar sem þeim er gefið færi á að leggja mat á áherslur kaflahöfunda. Að auki verður leitað eftir áliti hagsmunaaðila þegar drög skýrslunnar liggja fyrir og verður athugasemdum þeirra gerð skil í sér kafla.

Megináhersla skýrslunnar verður á þá kafla sem hafa ekki verið opnaðir og sem mestur ágreiningur hefur verið um í umræðunni hérlendis, þ.e.

1.        Efnahags- og peningamál og frjálsir fjármagnsflutningar

2.        Sjávarútvegsmál ásamt staðfestu- og þjónustufrelsi

3.        Landbúnaður og dreifbýlisþróun, ásamt matvælaöryggi og plöntu- og dýraheilbrigði

4.        Staða og framtíð EES samningsins, ásamt umræðu um þróun Evrópusambandsins frá því aðildarviðræður hófust

Þessir kaflar verða unnir af sérfræðingum á vegum Alþjóðamálastofnunar sem hafa sérþekkingu á hverju sviði fyrir sig. Í öllum köflunum verður byggt á fyrirliggjandi skriflegum gögnum, þar sem lagt verður mat á regluverk Evrópusambandsins í hverjum málaflokki fyrir sig og samningsafstaða Íslands skoðuð. Hins vegar verður nýrra upplýsinga aflað með því að taka viðtöl við embættismenn, samningamenn Íslands og ESB, auk innlendra hagsmunaðila og þær nýttar til þess að leggja mat á stöðu viðræðnanna, mögulega samningsniðurstöðu og einnig hvaða áhrif viðræðuhlé kann að hafa á samningsstöðu Íslands.