Vilhjálmur Egilsson rektor Háskólans á Bifröst - hættir hjá SA

Vilhjálmur Egilsson hefur verið ráðinn rektor Háskólans á Bifröst frá 1. júlí næstkomandi og mun láta af störfum sem framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.Vilhjálmur hefur verið framkvæmdastjóri SA frá 15. mars 2006 eða í 7 ár sem hefur verið viðburðaríkur tími í sögu samtakanna og íslensks atvinnulífs. Samtök atvinnulífsins færa honum þakkir fyrir störf hans.

Vilhjálmur er doktor í hagfræði frá University of Southern California í Los Angeles. Hann var ráðuneytisstjóri í Sjávarútvegsráðuneytinu 2004-2006 og sat í Framkvæmdastjórn AGS á árinu 2003.  Áður var Vilhjálmur framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands og alþingismaður fyrir Norðurland vestra.

Samtök atvinnulífsins óska Vilhjálmi góðs gengis í nýju starfi og telja starfsemi Háskólans á Bifröst afar mikilvæga fyrir íslenskt atvinnulíf. Samtök atvinnulífsins eru meðal bakhjarla Háskólans á Bifröst og hafa stutt við hann og munu halda því áfram, sérstaklega til uppbyggingar rannsókna í þágu atvinnulífsins.

Vilhjálmur vill að fram komi að hann er afar þakklátur fyrir þann tíma sem hann hefur átt í Samtökum atvinnulífsins og telur heiður af því að hafa starfað með öllu því fólki sem hann hefur átt samskipti við innan sem utan samtakanna.  Hann hlakkar til að takast á við starf rektors Háskólans á Bifröst þar sem hann fær tækifæri til að sinna betur ýmis konar rannsóknum í þágu íslensks atvinnulífs og ennfremur tækifæri til að miðla af þeirri þekkingu á atvinnu- og samfélagsmálum sem hann hefur aflað sér í námi og  margvíslegum störfum.