Vikulegur frídagur og ferðir starfsmanna til útlanda

Að undanförnu hefur nokkuð borið á fyrirspurnum til vinnumarkaðssviðs SA vegna helgarvinnu starfsmanna og rétt starfsmanns til vikulegs frídags í því sambandi. Samkvæmt kjarasamningum SA á starfsmaður rétt á vikulegum frídegi á hverju sjö daga tímabili. Að svo miklu leyti sem því verður við komið skal vikulegur frídagur vera á sunnudegi. Heimilt er þó að fresta frídeginum ef sérstakar ástæður gera slík frávik nauðsynleg. Þannig er heimilt að haga töku vikulegs frídags þannig að teknir séu tveir frídagar saman aðra hverja helgi (laugardag og sunnudag) ef samkomulag er um það við starfsmann.

Starfsmaður sem vinnur yfirvinnu eina helgi á þannig ekki rétt á sérstakri greiðslu á móti hinum vikulega frídegi né rétt á fríi á virkum degi í staðinn nema um slíkt sé sérstaklega samið. Ef starfsmaðurinn á frí í tvo daga um næstu helgi á eftir vinnuhelginni er hann búinn að fá bættan samningsbundinn vikulega frídag sem hann gat ekki tekið helgina á undan.

 

Vikulegir frídagar safnast ekki upp

Ef starfsmaður fær vegna óviðráðanlegra ástæðna ekki tvo vikulega frídaga á 14 daga fresti er honum heimilt að taka frí á virkum degi í þriðju viku. Í þessu eina tilviki er vikulegur frídagur launaður. Vikulegir frídagar safnast hins vegar ekki upp enda heimila kjarasamningar og lög ekki slíkt. Því er ekki er um það að ræða að hægt sé að krefjast greiðslna vegna uppsafnaðra ótekinna vikulegra frídaga löngu síðar s.s. við starfslok.

Aukavinna starfsmanna

Ef starfsmaður óskar sérstaklega eftir því að fá að vinna aukalega um helgar skal vinnuveitandi gæta að því eins og kostur er að viðkomandi fái samt sem áður sinn vikulega frídag eða taki frí heila helgi þess á milli. Ef því verður ekki viðkomið er rétt að benda á til að koma í veg fyrir ágreining síðar meir er æskilegt að vinnuveitandinn geti sýnt fram á að starfsmaðurinn hafi sjálfur óskað eftir að vinna þessa aukavinnu.

Helgarvinna erlendis

Ofangreindar reglur um vikulegan frídag eiga við hvort sem vinnan er innt af hendi hérlendis eða erlendis s.s. þegar starfsmaður er sendur vinnu sinnar vegna á námskeið eða sýningar erlendis. Starfsmaður á hins vegar almennt rétt á yfirvinnukaupi eða eftirvinnukaupi fyrir helgarvinnu nema samið hafi verið við hann um föst mánaðarlaun. Þá á starfsmaður ennfremur rétt á dagpeningagreiðslum í ferðum sínum erlendis til að mæta þeim kostnaði sem á hann fellur í slíkum ferðum. Í þeim tilvikum þar sem það er hluti starfslýsingar að fara til útlanda er rétt að um það sé sérstaklega samið í ráðningarsamningum hvernig greitt skuli fyrir slíkt. Ef starfsmaðurinn er ekki á föstu kaupi er algengt að samið sé um að hann fái 8 yfirvinnutíma greidda fyrir hvern dag sem hann er erlendis og hlutfallslega þá fyrir hálfa daga, burtséð frá því hversu mikla vinnu hann raunverulega vinnur í ferðinni.