Vígsla á Húsi atvinnulífsins

Hús atvinnulífsins, sem er nýtt húsnæði Samtaka atvinnulífsins (SA) og aðildarfélaga þeirra, var formlega vígt við hátíðlega athöfn föstudaginn 11. október. Um er að ræða fimm hæða nýbyggingu að Borgartúni 35 í Reykjavík og var vígslan liður í breytingum á félagakerfi atvinnulífsins sem miða að hagræðingu í rekstri og einföldun starfseminnar. Með því að færa starfsemi hinna ýmsu félaga atvinnurekenda á Íslandi undir eitt þak verða samskipti milli þeirra auðveldari og unnt verður að samhæfa starfsemina betur en áður. Einnig skapast möguleikar á að bæta þjónustu við hin 2.600 fyrirtæki sem aðild eiga að félögunum.

SA og sjö aðildarfélög samtakanna munu hafa aðsetur í Húsi atvinnulífsins, auk Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, Útflutningsráðs Íslands og EAN á Íslandi. Húsið er alls um 3.600 fermetrar að flatarmáli, með kjallara og þakhæð með sameiginlegri funda- og veitingaaðstöðu. Samtals munu SA og aðildarfélög nýta um tvo þriðju hluta hússins en annað rými verður leigt út.

Eftirtaldir aðilar hafa flutt starfsemi sína í Hús atvinnulífsins: Samtök atvinnulífsins, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök iðnaðarins, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fiskvinnslustöðva, SVÞ - Samtök verslunar og þjónustu, Samtök atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði, Félag íslenskra fiskimjölsframleiðenda, Samstarfsvettvangur sjávarútvegs og iðnaðar, Útflutningsráð Íslands, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og EAN á Íslandi. Alls hafa þessir aðilar tæplega eitthundrað starfsmenn á sínum snærum.

Fyrsta skóflustungan að Húsi atvinnulífsins var tekin í febrúar á síðasta ári en Samtök atvinnulífsins og nokkur aðildarfélög fluttu starfsemi sína í húsið síðastliðið vor. Húsið er hannað af Guðna Pálssyni arkítekt og var keypt af Herði Jónssyni byggingaverktaka.