Viðurkenning prófskírteina og starfsréttinda innan EES

Dagana 8.- 9. október verður efnt til námstefnu um gagnkvæma viðurkenningu prófskírteina og starfsréttinda á Evrópska efnahagssvæðinu. Námstefnan er öllum opin, en hún er ætluð öllum þeim sem fara með ráðningar og mat á starfs- og námsréttindum erlendra ríkisborgara sem ráða sig til vinnu hérlendis, en erlendir ríkisborgarar munu nú vera um 8% þeirra sem eru í launaðri atvinnu hér á landi. Meðal þeirra sem málið snertir eru samtök vinnumarkaðarins, embættismenn sem fara með starfsréttindi, starfsmenn stéttarfélaga, sveitarfélaga, menntastofnana og samtaka sem greiða götu innflytjenda.

Á ráðstefnunni verður gerð grein fyrir þeim reglum sem nú gilda um gagnkvæma viðurkenningu prófa og starfsréttindi þeirra erlendu ríkisborgara sem koma frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Þá er og fjallað um hvernig íslenskir ríkisborgarar sem fara til starfa í öðrum ríkjum á svæðinu geti gert grein fyrir námsferli sínum og starfsréttindum.

Aðalfyrirlesari á námstefnunni er dr. Timm Rentrop frá European Institute of Public Administration (EIPA). Hann er sérfræðingur í málefnum innri markaðar Evrópusambandsins og hefur m.a. sérhæft sig í málum er varða frjálsa för launafólks. Hann starfaði á vegum ESB í Brussel og hóf síðan störf hjá EIPA árið 1998, þar sem hann starfar við kennslu og rannsóknir. Fyrirlestrar hans fara fram á ensku. Aðrir fyrirlesarar á námstefnunni eru Ólafur Grétar Kristjánsson, Ásta Sif Erlingsdóttir og Gísli Fannberg. Námstefnustjóri er Björn Friðfinnsson. Námstefna er haldin á vegum menntamálaráðuneytisins og samtaka á vinnumarkaði.

Skráning og nánari upplýsingar á vef Endurmenntunar HÍ