Vinnumarkaður - 

24. október 2007

Viðurkenning fyrir framúrskarandi vinnuverndarstarf

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Viðurkenning fyrir framúrskarandi vinnuverndarstarf

Fjögur fyrirtæki hlutu viðurkenningu Vinnueftirlitsins fyrir framúrskarandi vinnuverndarstarf á ráðstefnu sem haldin var í tilefni af Vinnuverndarvikunni sem nú stendur yfir. Fyrirtækin eru Hjúkrunar- og dvalarheimilið Lundur á Hellu, Kjötvinnsla Kaupfélags Skagfirðinga á Sauðárkróki, Jarðboranir og Mjólkursamsalan. Í Vinnuverndarviku er reynt að vekja sérstaka athygli á því hvernig tryggja megi öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi.

Fjögur fyrirtæki hlutu viðurkenningu Vinnueftirlitsins fyrir framúrskarandi vinnuverndarstarf á ráðstefnu sem haldin var í tilefni af Vinnuverndarvikunni sem nú stendur yfir. Fyrirtækin eru Hjúkrunar- og dvalarheimilið Lundur á Hellu, Kjötvinnsla Kaupfélags Skagfirðinga á Sauðárkróki, Jarðboranir og Mjólkursamsalan. Í Vinnuverndarviku er reynt að vekja sérstaka athygli á því hvernig tryggja megi öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi.

Í umsögn Vinnueftirlitsins um fyrirtækin fjögur sagði m.a.

Á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Lundi á Hellu vinna 34 starfsmenn. Þar er skýr starfsmannastefna sem tekur mið af vinnuverndarsjónarmiðum og þeim fylgt eftir með aðgerðum. Lögð er áhersla á fræðslu og endurmenntun starfsmanna þannig að þeir eigi auðveldara með að takast á við erfiðar aðstæður sem geta komið upp í vinnunni. Heimilið er vel búið léttitækjum til að draga úr líkamlegu álagi við vinnuna og nýta allir starfsmenn þau markvisst. Nýir starfsmenn fá þjálfun í líkamsbeitingu og starfsmenn sækja slík námskeið reglulega. Áhersla er lögð á almenna heilsueflingu starfsmanna m.a. með árlegri heilsueflingarviku og aðgangi að líkamsræktarsal. Starfsmenn eru hafðir með í ráðum við skipulagningu og breytingar sem fyrirhugaðar eru bæði í starfseminni og áætlaðri stækkun heimilisins. Hjúkrunar- og dvalarheimilið Lundur á Hellu er að mati Vinnueftirlitsins góður vinnustaður þar sem vellíðan íbúa og starfsmanna þeirra er höfð að leiðarljósi og eru forvarnir gegn álagseinkennum meðal starfsmanna mikilvægur þáttur þar í.

Hjá Jarðborunum starfa um 220 starfsmenn. Fyrirtækið er með höfuðstöðvar í Kópavogi en rekur fimm stóra bora vítt og breitt um landið. Jarðboranir hafa skýra stefnu í vinnuverndarmálum og er markmiðið að engin slys né heilsutjón verði hjá fyrirtækinu. Áhættumati fyrirtækisins er að ljúka fyrir borana og er nú hluti af öryggis- og heilbrigðisáætlun fyrir hvern bor. Allir starfsmenn á borum komu að gerð áhættumatsins með aðstoð þjónustuaðila og eru úrbætur nú hafnar. Mjög öflug nýliðafræðsla fer fram hjá Jarðborunum. Haldin er ítarleg slysaskrá og vel er fylgst með tilvikum sem gætu valdið slysum og þau skráð. Allir starfsmenn gera sér grein fyrir mikilvægi persónuhlífa og nota þær undanbragðalaust. Mjög hefur dregið úr líkamlega erfiðri vinnu með tilkomu nýrra bora og markvist er reynt er að draga úr því að færst sé of mikið í fang með því að nota tæknilegar lausnir, léttitæki og samvinnu. Það er mat Vinnueftirlitsins að kerfisbundið vinnuverndarstarf Jarðborana sé til fyrirmyndar og til þess fallið að draga úr slysahættu og heilsutjóni, m.a. vegna líkamlegs ofálags.

Hjá Kjötafurðastöð KS á Sauðárkróki er fjöldi fastra starfsmanna um 25 en í tvo mánuði á ári, á haustin, eru ráðnir um 130 manns. Vinnuvernd er höfð að leiðarljósi við skipulag á daglegum störfum í kjötvinnslunni. Fyrirtækið hefur gert áhættumat á störfum í kjötvinnslu og gert margar og góðar úrbætur í kjölfarið. Áhættumatið var unnið af öryggisnefndinni undir stjórn gæðastjóra fyrirtækisins en með starfsfólki og stjórnendum á hverju svæði fyrir sig.  Í kjölfarið áhættumats voru gerðar úrbætur á áhættuþáttum. Þær beindust einkum að því að draga úr álagi vegna óheppilegar líkamsbeitingar með því að innleiða notkun á léttitækjum og ýmsum tæknilegum lausnum. Einnig hafa starfsmenn fengið viðbótarhlífðarfatnað auk þess sem gólfefni hafa verið endurnýjuð til að draga úr hálku. Þessar markvissu forvarnaraðgerðir í kjölfar áhættumats sem hér hafa verið raktar telur Vinnueftirlitið að séu til fyrirmyndar og því fær Kjötafurðastöð KS á Sauðárkróki þessa viðurkenningu.

Hjá Mjólkursamsölunni starfa um 450 manns. Aðalskrifstofur félagsins eru í Reykjavík en alls rekur félagið sjö starfsstöðvar um land allt. Stefnumótun fyrirtækisins í vinnuverndarmálum og aðgerðir ná til allra starfstöðva. Undanfarið ár hefur fyrirtækið unnið að gerð áhættumats í virku samstarfi við öryggisnefndir með aðstoð ráðgjafa. Alls eru nú um 15 starfshópar í gangi sem taka þátt í þessari vinnu. Skýr áætlun liggur fyrir um áframhald vinnu við gerð áhættumats og fræðslu því tengt. Lögð er áhersla á að vinna úrbætur í nánu samráði við starfsmenn en einnig með aðkomu sérfræðinga eftir þörfum. Sem dæmi má nefna að hönnuð hafa verið sérstök hjálpartæki sem bílstjórarnir sjálfir hafa átt hugmynd að til að létta þeim störfin og draga úr líkamlegu álagi við vinnuna. Er það mat Vinnueftirlitsins að kerfisbundið vinnuverndarstarf fyrirtækisins með þátttöku starfsmanna sé öðrum til fyrirmyndar og hafi sýnilega leitt til lausna sem draga úr líkamlegu álagi við vinnuna. 

Samtök atvinnulífsins