Efnahagsmál - 

14. Maí 2009

Víðtæk samvinna nauðsynleg

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Víðtæk samvinna nauðsynleg

Í ítarlegri samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna er þung áhersla lögð á samvinnu við aðila vinnumarkaðarins á fjölmörgum sviðum. Þessar áherslur eiga sér líklega ekki fordæmi hér á landi og endurspegla annars vegar það grafalvarlega ástand sem ríkir í efnahagslífinu og þá ríku kröfu sem gerð hefur verið um fjölþætt samstarf leiðandi aðila með það að markmiði að tryggja stöðugleika til frambúðar og efla atvinnustarfsemi.

Í ítarlegri samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna er þung áhersla lögð á samvinnu við aðila vinnumarkaðarins á fjölmörgum sviðum. Þessar áherslur eiga sér líklega ekki fordæmi hér á landi og endurspegla annars vegar það grafalvarlega ástand sem ríkir í efnahagslífinu og þá ríku kröfu sem gerð hefur verið um fjölþætt samstarf leiðandi aðila með það að markmiði að tryggja stöðugleika til frambúðar og efla atvinnustarfsemi.

Í samstarfsyfirlýsingunni er stefnan sett á samvinnu við aðila vinnumarkaðarins á a.m.k. 9 sviðum, þ.e. um gerð þríhliða stöðugleikasáttmála, ríkisfjármál, greiðsluvanda heimila, velferðarmál, atvinnumál, jafnréttismál, umræðugrundvöll viðræðna við ESB, stjórnkerfisumbætur og vinnumarkaðsmál. Þá er sett það metnaðarfulla markmið í 100 daga áætlun ríkisstjórnarinnar að mótuð verði atvinnustefna í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og háskólasamfélagsins sem hafi það m.a. að markmiði að Ísland verði meðal 10 samkeppnishæfustu landa heims árið 2010.

Frá sjónarhóli vinnumarkaðarins er gerð þríhliða stöðugleikasáttmála aðkallandi verkefni þar sem eyða þarf óvissu um framhald kjarasamninga á almennum vinnumarkaði á næstu vikum og í síðasta lagi fyrir júnílok. Af hálfu Samtaka atvinnulífsins hefur verið lýst þeim vilja að samningarnir haldi áfram, þrátt fyrir afar þrönga stöðu, en til þess þurfi þó að gera á þeim tilteknar breytingar en þó þannig að þeir verði að fullu efndir fyrir samningslok í nóvember 2010. Jafnframt þarf að marka stefnu í samningamálum hjá ríki og sveitarfélögum fyrir þetta og næsta ár.

Endurskoðun kjarasamninga sem átti að eiga sér stað í febrúar síðastliðnum var frestað fram í júní vegna óvissu í stjórnmálum. Vinna við undirbúning víðtæks stöðugleikasáttmála hefur dregist nokkuð vegna kosningabaráttunnar og stjórnarmyndunarviðræðna. Nú er sá tími að baki og ekkert því til fyrirstöðu að hefja þessa vinnu af fullum krafti.

Fulltrúar heildarsamtakanna hafa hist reglulega síðastliðinn vetur og vor og hafa sett niður meginmarkmið í slíkum sáttmála. Þess sjást merki í samstarfsyfirlýsingunni þar sem tekið er undir öll helstu atriði sem samningsaðilar höfðu sett fram, m.a. að skapa skilyrði fyrir afnámi gjaldeyrishafta og hraðri lækkun vaxta, skapa hagstæð rekstrarskilyrði fyrir fyrirtæki þannig að störf verði varin, fylgja markvissri áætlun um jafnvægi í ríkisfjármálum og að standa vörð um velferðarkerfið eins og kostur er. Leiðir að þessum markmiðum eru að efla traust á atvinnulífinu, örva fjárfestingar og koma á eðlilegum lánaviðskiptum við útlönd. Það er því ljóst að ekki er ágreiningu milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um markmið og leiðir í stórum dráttum og því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að samkomulag takist í tæka tíð.

Hannes G. Sigurðsson

Samtök atvinnulífsins