Viðskipti með losunarheimildir innan EES

Ráðgjafarnefnd EFTA hefur sent frá sér yfirlýsingu um mikilvægi jafnrar samkeppnisstöðu í viðskiptum með losunarheimildir vegna gróðurhúsalofttegunda á Evrópska efnahagssvæðinu. Reglur um viðskipti með losunarkvóta hafa verið í gildi innan ESB samkvæmt tilskipun frá árinu 2003. Í yfirlýsingu ráðgjafarnefndarinnar er hvatt til þess að upptöku hliðstæðra reglna í EES samninginn verði hraðað, en þær hafa verið í undirbúningi um hríð.

Bent er á það í yfirlýsingunni að vegna þess hve orkubúskapur og framleiðslustarfsemi er ólík í EFTA- og EES-ríkjum séu aðstæður þar mjög breytilegar. Endurnýjanlegir orkugjafar leiki auk þess mjög misstórt hlutverk í því að ná markmiðum Kyoto-bókunarinnar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Lögð er áhersla á að sameiginleg skuldbinding ríkja ESB samkvæmt Kyoto-bókuninni gildi ekki um EFTA-ríkin, heldur hafi einstök EFTA-ríki tekið á sig skuldbindingar sem þau muni hvert og eitt leitast við að mæta samkvæmt sínum eigin aðferðum og aðstæðum í hverju landi. Bent er á að Ísland hyggist nýta ákvörðun á vettvangi loftlagssáttmála Sameinuðu þjóðanna sem viðurkennir mikilvægi endurnýjanlegra orkugjafa í því að ná markmiðum sáttmálans. Loks skal bent á að í yfirlýsingunni er tekið fram að ekki megi vanmeta hve vandasamt verði að fella útblástur frá samgöngum undir kvótakerfi. Þetta eigi við um alþjóðlegar flugsamgöngur, en hafa verði í huga að slík ráðstöfun gæti orðið kostnaðarsöm fyrir land á borð við Ísland sem sé sérstaklega háð þessum samgöngumáta. Þurfi að taka tillit til þessa og ráðgast við íslenska hagsmunaaðila um þetta efni.

Ráðgjafarnefnd Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) er skipuð fulltrúum samtaka í atvinnulífi í EFTA löndunum. Nefndin fjallar um hvaðeina sem tengist starfssviði samtakanna, bæði fríverslunarsamninga og EES-samninginn. Nefndin sendir frá sér ályktanir og ráðleggingar um slík málefni, ýmist að eign frumkvæði eða samkvæmt beiðni ráðherraráðs EFTA eða fastanefndar aðildarríkjanna. Fulltrúar Íslands í ráðgjafarnefnd EFTA eru frá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Viðskiptaráði, Alþýðusambandi Íslands og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Áheyrnarfulltrúi er frá Samtökum íslenskra sveitarfélaga.

Yfirlýsingu ráðgjafarnefndar EFTA má lesa hér