Viðskiptasetur opnað til að efla atvinnulíf

Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur opnað viðskiptasetur í samvinnu við Landsbankann og Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja. Viðskiptasetrið er kallað Torgið en opnun þess er liður í samningi sem Samtök atvinnulífsins undirrituðu ásamt Nýsköpunarmiðstöð og SSF í október. Á Torginu munu einstaklingar fá aðstöðu aðstöðu og umgjörð til að vinna að viðskiptahugmyndum. Torgið verður opnað mánudaginn 17. nóvember. Fólk með viðskiptahugmyndir á öllum sviðum er hvatt til að sækja um aðstöðu.

Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar, segir að á Torginu fái kraftmiklir einstaklingar tækifæri til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Mikill mannauður búi í þeim sem hafi þurft að hverfa frá störfum undanfarnar vikur og mánuði "Þetta er ný sókn við nýjar, óvæntar aðstæður,"  segir hann í tilkynningu.

Torgið verður starfrækt í húsnæði Landsbankans í Austurstræti 16. Tekið er á móti fyrirspurnum um setrið á netfanginu torgid@nmi.is en nánari upplýsingar og umsóknareyðublað er að finna á vef Nýsköpunarmiðstöðvar.

Sjá nánar:

Upplýsingar á vef Nýsköpunarmiðstöðvar

Upplýsingar á vef SA um samstarfssamning í október