Viðræður um nýja endurreisnaráætlun efnahags- og atvinnulífsins

Í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag er að finna ítarlegt viðtal við Vilmund Jósefsson, formann Samtaka atvinnulífsins. Þar segir Vilmundur m.a. að ákveðið hafi verið að huga að nýrri endurreisnaráætlun fyrir efnahags- og atvinnulífið en SA líta svo á að ríkisstjórnin hafi vísað samtökunum frá stöðugleikasáttmálanum sem skrifað var undir fyrir tæpu ári. "Við eigum nú í viðræðum við aðila vinnumarkaðarins um það hvort við getum komið af stað einhvers konar áætlun. Síðan kemur það í hlut ríkisstjórnarinnar að ákveða hvort hún vill vera aðili að þeirri áætlun," segir Vilmundur.

Í viðtalinu segir Vilmundur að mikill vilji sé innan Samtaka atvinnulífsins til að koma atvinnulífinu í gang aftur en samskipti við stjórnvöld hafi verið erfið.

 "Við vorum aðilar að stöðugleikasáttmála en að okkar mati var þessum sáttmála vísað frá fyrir nokkrum vikum. Þar réðu ákvarðanir einstakra ráðherra innan ríkisstjórnarinnar mestu um, þeir töldu sig ekki vera bundna af þessum sáttmála sem forsætisráðherra og fjármálaráðherra skrifuðu undir," segir Vilmundur og bætir því við að það sé nýlunda að ráðherrar í ríkisstjórn telji sig ekki bundna af því sem forsætisráðherra ákveði.

"Það er eitt af því sem við eigum afskaplega erfitt með að sætta okkur við."

Í viðtalinu ræðir Vilmundur m.a. um samskiptin við stjórnvöld, stöðuna í atvinnulífinu, skattastefnu stjórnvalda, hrunið og málefni SA, m.a umræðuna um Evrópumál, en innan SA eru mjög skiptar skoðanir um þau mál.

Sjá nánar:

Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta sótt rafrænt eintak blaðsins á vef Viðskiptablaðsins.